EN

Jónas Ásgeir Ásgeirsson

Harmóníkuleikari

Jónas Ásgeir Ásgeirsson er klassískur harmóníkuleikari búsettur í Kaupmannahöfn. Hann frumflytur reglulega ný verk og vinnur náið með tónskáldum hvaðanæva að en einblínir sérstaklega á flutning íslenskrar tónlistar sem og sköpun nýrra íslenskra verka fyrir hljóðfæri sitt. Árið 2022 gaf Dacapo Records út plötu Jónasar, Fikta, með íslenskri tónlist fyrir klassíska harmóníku. Á plötunni eru m.a. verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Atla Heimi Sveinsson sem höfðu aldrei verið hljóðrituð áður. Einnig má þar hlýða á Harmoníkukonsert Finns Karlssonar sem saminn var fyrir Jónas. Fikta hlaut viðurkenninguna plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023 í flokki sígildrar-og samtímatónlistar og var Jónas valinn flytjandi ársins í sama flokki.

Jónas varð fyrsti Íslendingurinn til að flytja harmóníkukonsert með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2016 á tónleikunum Ungir einleikarar. Síðan þá hefur hann flutt konsert Þuríðar Jónsdóttur, Installation Around a Heart við nokkur tilefni sem og fyrrnefndan konsert Finns. Á döfinni hjá Jónasi er flutningur á konsert Þuríðar í Björgvin, sem og frumflutningur á nýjum konsert fyrir harmóníku og sinfóníettu ásamt Århus Sinfonietta eftir Báru Gísladóttur. Einnig vinnur Jónas nú að einleiksefnisskrá með nýjum verkum eftir Þuríði, Huga Guðmundsson og Sóleyju Sigurjónsdóttur ásamt eigin útsetningu á verki eftir Önnu Þorvaldsdóttur