EN

Jonathan Cohen

Hljómsveitarstjóri

Jonathan Cohen er í fremstu röð breskra tónlistarmanna af sinni kynslóð og hefur getið sér orð fyrir allt þrennt: hljómsveitarstjórn, sellóleik og hljómborðsleik. Hann er þekktur fyrir þá rækt sem hann leggur við kammermúsík og er jafn vel heima í flutningi barokkópera og klassískra sinfónískra verka. Hann stýrir sinni eigin kammersveit, Arcangelo, sem hann stofnaði árið 2010, og hefur með henni komið fram í virtum tónleikasölum eins og Wigmore Hall í Lundúnum, Fílharmóníunum í Berlín og Köln, Musikverein í Vínarborg, Carnegie Hall í New York, á Salzburgarhátíðinni og Proms-tónlistarhátíð breska útvarpsins.

Auk þess að stýra Arcangelo er Cohen aðstoðarstjórnandi barokksveitarinnar Les Arts Florissants, listrænn stjórnandi Tetbury-tónlistarhátíðarinnar á Englandi og listrænn ráðgjafi Saint Paul-kammersveitarinnar í Minnesota. Haustið 2018 tók hann við stjórn kanadíska barokkhópsins Les Violons du Roy. Cohen hefur stjórnað óperuflutningi við góðan orðstír, m.a. Brúðkaupi Fígarós við Glyndebourne óperuna, auk þess sem hann stjórnaði óratoríunni Theodora eftir Händel á Proms-tónleistarhátíðinni. Hann hefur stjórnað sinfóníuhljómsveitum í fremstu röð beggja vegna Atlantsála, svo sem hátíðarhljómsveitinni í Búdapest, Fílharmóníusveit New York, Cleveland-hljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Hamborgar.

Jonathan Cohen og Arcangelo-sveitin hafa gert margar hljóðritanir, m.a. með úrvalssöngvurum eins og Önnu Prohaska, Christopher Purves og Iestyn Davies. Bach-kantötur í flutningi Davies og Arcangelo hlutu Gramophone-verðlaunin í flokki barokktónlistar og diskur með sellókonsertum eftir Carl Philipp Emanuel Bach, sem sveitin hljóðritaði ásamt Nicolas Altstaedt, vann til verðlauna BBC Music Magazine. Þá var hljómdiskur hans með verkum eftir Dietrich Buxtehude tilnefndur til Grammy-verðlauna árið 2018. Cohen stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á aðventutónleikum árið 2017 og vakti mikla hrifningu hljómsveitar jafnt sem tónleikagesta.