EN

Jonathan Cohen

Hljómsveitarstjóri

Jonathan Cohen er í fremstu röð breskra tónlistarmanna af sinni kynslóð og hefur getið sér orð fyrir allt þrennt: hljómsveitarstjórn, sellóleik og hljómborðsleik. Hann er þekktur fyrir þá rækt sem hann leggur við kammermúsík og er jafn vel heima í flutningi barokkópera og klassískra sinfónískra verka. Hann stýrir sinni eigin kammersveit, Arcangelo, sem hann stofnaði árið 2010, og hefur með henni komið fram í virtum tónleikasölum eins og Wigmore Hall í Lundúnum, Fílharmóníunum í Berlín og Köln, Musikverein í Vínarborg, Carnegie Hall í New York, á Salzburgarhátíðinni og Proms tónlistarhátíð breska útvarpsins. Auk þess að stýra Arcangelo er Cohen tónlistarstjóri kanadíska barokkhópsins Les Violons du Roy, listrænn stjórnandi Tetbury tónlistarhátíðarinnar á Englandi og listrænn ráðgjafi Saint Paul-kammersveitarinnar í Minnesota.

Cohen hefur stjórnað sinfóníuhljómsveitum beggja vegna Atlantsála, m.a. Búdapest hátíðarhljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Hamborgar, Sænsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni í Seattle. Hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á aðventutónleikum árið 2017 og vakti þá mikla hrifningu hljómsveitar jafnt sem tónleikagesta.

Jonathan Cohen og Arcangelo-sveitin hafa gert margar hljóðritanir, m.a. með úrvalssöngvurum eins og Önnu Prohaska, Christopher Purves og Iestyn Davies. Bach-kantötur í flutningi Davies og Arcangelo hlutu Gramophone-verðlaunin í flokki barokktónlistar og diskur með sellókonsertum Carls Philipps Emanuels Bach, sem sveitin hljóðritaði ásamt Nicolas Altstaedt, vann til verðlauna BBC Music Magazine.