EN

Jonathan Swensen

Sellóleikari

Danski sellóleikarinn Jonathan Swensen er aðeins tuttugu og fimm ára gamall en hefur undanfarin ár sópað að sér verðlaunum í alþjóðlegum keppnum. Hann hlaut Young Concert Artists-verðlaunin árið 2018 og vann til fyrstu verðlauna í Windsor-strengjakeppninni árið 2019 auk þess sem hann hlaut Léonie Sonning-verðlaunin í heimalandi sínu fyrir framúrskarandi leik.

Jonathan Swensen hefur leikið með fjölda hljómsveita, m.a. hljómsveitinni Fílharmóníu, Sinfóníuhljómsveitinni í Porto, og Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar. Hann hefur einnig komið fram á fjölda tónleika og hátíða, meðal annars á tónlistarhátíðinni í Tívolí, auk þess sem hann hefur haldið einleikstónleika í New York og Washington D.C. Hann stundaði nám við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og við Norsku tónlistarakademíuna í Ósló þar sem Torleif Thedéen var kennari hans. Hann sækir nú tíma hjá Laurence Lesser við New England Conservatory í Boston.