EN

Jörgen van Rijen

Básúnuleikari

Hollenski básúnuleikarinn Jörgen van Rijen leiðir básúnudeild Concertgebouw-hljómsveitarinnar í Amsterdam, sem talin er ein sú besta í heimi. Hann hóf básúnunám átta ára gamall og hóf háskólanám við Tónlistarháskólann í Rotterdam 16 ára að aldri. Að námi loknu lék hann með Fílharmóníusveitinni í Rotterdam um skeið en tók við stöðu leiðandi básúnuleikara Concertgebouw-sveitarinnar árið 1997. Jörgen van Rijen hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leik sinn og hefur starfað náið með samtímatónskáldum eins og James MacMillan og Kalevi Aho. Meðal annars frumflutti hann nýjan básúnukonsert MacMillans með Concertgebouw-sveitinni undir stjórn Iváns Fischer árið 2017. Hann stofnaði básúnuhópinn New Trombone Collective árið 2003 og hefur ferðast með honum víða um heim. Hann hlaut Hollensku tónlistarverðlaunin árið 2004, en þau eru æðsti heiður sem tónlistarmanni getur hlotnast þar í landi. 

Jörgen van Rijen hefur leikið básúnukonsert Tomasis margoft með hljómsveitum víða um heim, meðal annars með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, og kom flutningur hans með þeirri sveit út á geisladiski árið 2005.

http://www.jorgenvanrijen.com/