EN

Karina Canellakis

Hljómsveitarstjóri

Karina Canellakis er ein skærasta stjarnan meðal ungra hljómsveitarstjóra í dag. Hún hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarin misseri. Árið 2016 hlaut hún hin virtu Georg Solti-verðlaun og komst í heimsfréttirnar árið 2014 þegar hún hljóp í skarðið fyrir Jaap van Zweden með nær engum fyrirvara og stjórnaði tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í Dallas með miklum glæsibrag.

Canellakis er fædd og uppalin í New York, hún hefur lokið tónlistarnámi bæði frá Curtis-tónlistarháskólanum í Fíladelfíu, þar sem hún lærði á fiðlu og frá Juilliard-tónlistarháskólanum í New York þar sem hún stundaði nám í hljómsveitarstjórn. Sem fiðluleikari spilaði Canellakis með ýmsum bandarískum hljómsveitum og var um tíma gestakonsertmeistari Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Bergen auk þess sem hún kom reglulega fram á sumartónlistarhátíðinni Marlboro Music Festival. Um tveggja ára skeið starfaði Canellakis í Hljómsveitarakademíu Berlínarfílharmóníunnar, akademían er starfrækt fyrir ungt framúrskarandi tónlistarfólk sem fær þjálfun í hljómsveitarspili. Þar lék hún iðulega undir stjórn Simons Rattle, sem skynjaði hæfileika hennar og hvatti hana til að snúa sér að hljómsveitarstjórn.

Fyrstu formlegu tónleikarnir sem hún stjórnaði voru í Graz í Austurríki árið 2015, þá stjórnaði hún Kammersveit Evrópu. Eftir það hefur leiðin sannarlega legið upp á við hjá Canellakis og hún haft í nógu að snúast. Í september 2017 stjórnaði hún Sinfóníuhljómsveit breska útvarpsins BBC á Promstónleikum í London og hún var nýverið skipuð aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Hollandi. Þá er hún aðalgestastjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Berlín.

Canellakis stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrst á tónleikum með klarínettleikaranum Andreas Ottensamer haustið 2017, og vakti þá svo mikla hrifningu áheyrenda og hljómsveitar að henni var umsvifalaust boðið aftur til landsins.