EN

Keri-Lynn Wilson

Hljómsveitarstjóri

Keri-Lynn Wilson hefur getið sér gott orð sem óperustjórnandi bæði í Evrópu og Ameríku. Hún var aðalstjórnandi Slóvensku þjóðarfílharmóníunnar starfsárið 2014–15 og stjórnaði einnig við Ensku þjóðaróperuna, Útvarpshljómsveitina í Hannover og við Bæversku þjóðaróperuna, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur einnig stjórnað m.a. við Konunglegu óperuna í Stokkhólmi og við óperuhúsið í Zürich, og sinfóníuhljómsveitum í París, Los Angeles, Montreal, Toronto, Washington, Sankti Pétursborg, Madrid og víðar. Nýverið stjórnaði hún Rigoletto við Norsku þjóðaróperuna og Toscu við Teatro Colón í Buenos Aires við frábærar viðtökur.

Wilson stundaði flautunám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og var um skeið aðstoðarstjórnandi Claudio Abbado við Salzburgar-hátíðina. Hún er fædd í Winnipeg og er af íslensku bergi brotin. Amma hennar var helsti píanisti Vestur-Íslendinga í Winnipeg á sinni tíð og grípur raunar enn í hljóðfærið á hverjum degi þótt hún sé orðin 100 ára gömul.