EN

Kirill Gerstein

Píanóleikari

Kirill Gerstein fæddist í Rússlandi árið 1979 og hóf klassískt píanónám aðeins tveggja ára gamall. Hann lærði að spila jazz með því að hlusta á jazzplötur foreldra sinna og hlaut námsstyrk til þess að læra jazzpíanóleik við Berklee College of Music í Boston aðeins fjórtán ára gamall. Að námi loknu við Berklee flutti hann sig yfir í Manhattan School of Music þaðan sem hann lauk bakkalár- og meistaraprófi fjórum árum síðar. Í kjölfarið hélt hann til náms hjá Dmitri Bashkirov í Madríd og Ferenc Rados í Búdapest.

Ferill Gerstein hófst fyrir alvöru árið 2000 þegar hann lék píanókonsert nr. 1 eftir Brahms með Tonhalle-hljómsveitinni í Zürich. Hann hlaut fyrstu verðlaun í Arthur Rubinstein International Piano Master Competition árið 2001 og ári síðar fékk hann Gilmore Young Artist verðlaunin. Árið 2010 hlotnaðist honum sá heiður að verða sjötti verðlaunahafi hinna virtu Gilmore verðlauna sem viðurkenna framúrskarandi píanóleikara á fjögurra ára fresti. Í vetur er Gerstein staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Bæverska útvarpsins, í Wigmore Hall í London og á Festival d'Aix-enProvence. Þá mun hann koma fram með fílharmóníusveitum Lundúna, New York og Dresden og sinfóníuhljómsveitum St Louis, Birminghamborgar og Tokyo og með Cleveland hljómsveitinni. Hann mun jafnframt frumflytja nýtt verk fyrir fiðlu og píanó eftir Thomas Adès ásamt Christian Tetzlaff, leika verk Brahms, Hindemith, Clarke og Shostakovich með Tabea Zimmermann, horntríó eftir Brahms og Ligeti með Alan Gilbert og Stefan Dohr og svo mun hann flytja verk eftir Stravinsky, Schubert og Liszt á einleikstónleikum í Concertgebouw.

Gerstein hefur tvisvar sinnum áður leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, seinni píanókonsert Brahms í Háskólabíói árið 2011 og fyrsta píanókonsert Tsjajkovskí árið 2016 í Hörpu.