EN

Ligia Amadio

Hljómsveitarstjóri

Ligia Amadio hefur fengið lofsamlega dóma fyrir listfengi, persónutöfra og kraftmikla sviðsframkomu. Amadio hefur staðið á stjórnendapallinum í yfir tuttugu ár og verið listrænn stjórnandi og gestastjórnandi margra framúrskarandi hljómsveita. Hún var aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Rio de Janeiro í yfir áratug ásamt því að vera listrænn stjórnandi og aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitar Mendoza í Argentínu. Í dag gegnir Amadio stöðu aðalhljómsveitarstjóra Fílharmóníuhljómsveitar Bogotá í Kólumbíu.

Amadio hefur verið gestastjórnandi margra hljómsveita í Evrópu, Asíu og Ameríku og má þar nefna Hollensku útvarpshljómsveitina, Fílharmóníusveitina í Tókýó, Fílharmóníusveit Tælands, Sinfóníuhljómsveit São Paulo, Ísraelsku kammersveitina, Sinfóníuhljómsveit Mexíkó og Fílharmóníusveit Buenos Aires. Amadio hefur unnið með mörgum framúrskarandi listamönnum á borð við Mörtu Argerich, Shlomo Mintz og Peter Donohoe. Amadio var fyrst kvenna í þrjátíu ár til að hljóta verðlaun í Alþjóðlegu hljómsveitarstjórakeppninni í Tókýó 1997 og ári síðar vann hún Rómönsk-amerísku hljómsveitarstjórakeppnina í Santiago í Síle. Hún ásamt þremur öðrum var valin úr hópi 180 nema til að stjórna Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam eftir frábæra frammistöðu á Kirill Kondrashin-hljómsveitarstjóranámskeiðinu. Árið 2001 var hún útnefnd hljómsveitarstjóri ársins af tónlistargagnrýnendum í São Paulo og 2012 veittu Carlos Gomes-samtökin í Brasilíu henni sama vegsauka. 

Ligia Amadio sá um gerð útvarpsþátta um tónlist og bókmenntir fyrir mennta- og menningamálaráðuneyti Brasilíu um nokkurra ára skeið en auk þess hefur hún stjórnað Þjóðarhljómsveit Brasilíu (UFF) og RTV-sinfóníuhljómsveitinni í Slóveníu ásamt fleirum á yfir tug geisla- og mynddiska.