Liza Ferschtman
Einleikari
Hollenski fiðluleikarinn Liza Ferschtman hefur komið víða við á glæstum ferli sínum sem fiðluleikari. Hún er fædd og uppalin í Hollandi, dóttir rússneskra innflytjenda sem bæði voru atvinnutónlistarfólk. Tónlistarhæfileikar hennar komu snemma í ljós og þegar hún var loks búin að ákveða að fiðlan væri sitt hljóðfæri fleygði henni fram undir handarjaðri Herman Krebbers við Konservatoríið í Amsterdam. Þegar hún var aðeins 17 ára gömul bar hún sigur úr býtum í hollensku fiðlukeppninni. Hún lærði síðar við Curtis stofnunina í Fíladelfíu í Bandaríkjunum hjá Idu Kavafian og síðar hjá David Takeno við Guildhall skólann í London.
Liza er þekkt fyrir áhuga sinn á fjölbreyttri tónlist og flytur jöfnum höndum eldri tónlist sem nýrri; allt frá barokktónlist til fjölbreyttra samstarfsverkefna með tónskáldum samtímans. Hún hefur komið fram sem einleikari með mörgum af þekktustu hljómsveitum heims líkt og Sinfóníuhljómsveitinni í San Francisco, Fílharmóníuhljómsveitinni í Helsinki og Hátíðarhljómsveitinni í Budapest og unnið með stjórnendum líkt og Ivan Fisher, John Storgårds, Elias Grandy og Stephene Denève.
Liza hefur einnig getið sér gott orð sem flytjandi einleiksverka og oft fengist við stórar áskoranir á því sviði. Hún er þekkt fyrir túlkun sína á einleikssónötum og partítum J. S. Bachs og jafnvel flutt þær allar á einum og sömu tónleikunum.
Liza hefur og vakið athygli sem skipuleggjandi tónlistarhátíða og stórra samstarfsverkefna. Sem mikil áhugamanneskja um danslistina hefur hún unnið mikið með dansflokknum LeineRoebana, sem og hollenska þjóðarballettinum. Hún var listrænn stjórnandi Kammertónlistarhátíðinni í Delft í Hollandi frá 2007 – 2021 og óx hátíðinni verulega fiskur um hrygg í stjórnartíð hennar. Hún hlaut hollensku tónlistarverðlaunin árið 2006 og hún hlaut einnig hina hollensku heiðursorðu Oranje-Nassau fyrir störf sín í þágu tónlistar árið 2021.
