EN

Mario Caroli

Flautuleikari

Ítalski flautuleikarinn Mario Caroli hóf flautunám 14 ára gamall og útskrifaðist með diplómapróf fimm árum síðar. Hann hlaut Kranichstein-tónlistarverðlaunin í Darmstadt 22ja ára, og hefur síðan átt glæstan feril sem einn eftirtektarverðasti flautuleikari sinnar kynslóðar, auk þess sem hann lauk háskólaprófi í heimspeki, og það með láði. Á efnisskrám sínum blandar hann saman tónlist frá gjörólíkum tímum, t.d. eftir franska barokktónskáldið Marin Marais og breska framúrstefnutónsmiðinn Brian Ferneyhough.

Einn helsti áhrifavaldur á leik Carolis var flautusnillingurinn Manuela Wiesler sem var Íslendingum að góðu kunn. Hún skrifaði honum þessar línur eftir flutning hans á flautuverkum eftir Jolivet: „Ég var djúpt snortin af túlkun þinni. Þú nærð til kjarna tónlistarinnar, innstu miðju sköpunarinnar, þar sem aðrir hljóðfæraleikarar láta sér nægja að sýna yfirborðið.“ Salvatore Sciarrino kallaði Caroli „Paganini flautunnar,“ og þannig mætti lengi telja.

Caroli kemur reglulega fram í helstu tónleikasölum heims, m.a. Berlínarfílharmóníunni, Concertgebouw í Amsterdam, Royal Festival Hall í Lundúnum og Lincoln Center í New York. Hann hefur unnið með stjórnendum á borð við Pierre Boulez, Peter Eötvös og Heinz Holliger, og hefur hljóðritað yfir 20 geisladiska. Hann var Fromm-gestakennari við Harvard-háskólann 2007-2008, og hefur gegnt gestastöðum m.a. við Sibeliusar-akademíuna og tónlistarháskólana í París, Leipzig og Genf.