EN

Martin Helmchen

Píanóleikari

Þýski píanóleikarinn Martin Helmchen hefur í um tvo áratugi komið fram á stærstu tónleikasviðum heims og telst einn eftirsóttasti píanisti samtímans. Frumleiki og dýpt túlkunar, sem og einstakur tónn og tæknileg fágun þykja einkenna leik hans. Árið 2020 hlaut hann hin virtu Gramophone Classical Music Award fyrir upptökur sínar af píanókonsertum Beethovens nr. 2 og 5. 

Helmchen hefur leikið sem einleikari með fremstu hljómsveitum heims, m.a. Berlínarfílharmóníunni, Fílharmóníusveit Vínar, Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, Staatskapelle Dresden, Sinfóníuhljómsveit Boston, Fílharmóníusveit New York og Cleveland hljómsveitinni. Hann hefur unnið reglulega með stjórnendum á borð við Herbert Blomstedt, Paavo Järvi, Jakub Hrůša, Andris Nelsons, Klaus Mäkelä og Kazuki Yamada.

Helmchen hefur gefið út fjölda geisladiska á vegum hinnar virtu Alpha Classics útgáfu. Árið 2024 kom út diskur með sex partítum J.S. Bachs, og hlaut sá gagnrýnendaverðlaun tímaritsins Gramophone sama ár. Nokkru fyrr kom út diskur með tónlist Robert Schumann sem einnig hlaut mikið lof. Í júní á þessu ári kom út tvöfaldur geisladiskur þar sem Helmchen leikur ásamt eiginkonu sinni, Marie-Elisabeth Hecker, sellósónötur eftir Shostakovitsj, Schnittke, Stravinskíj og fleiri.

Helmchen er fæddur í Berlín 1982; nam hjá Galinu Iwanzowa við Hanns Eisler tónlistarháskólann og síðar hjá Arie Vardi í Hannover. Aðrir leiðbeinendur voru m.a. William Grant Naboré og Alfred Brendel. Ferill hans fór fyrst á flug eftir sigur í Clöru Haskil-píanókeppninni árið 2001 og fáum árum síðar hlaut hann einnig hvatningaverðlaun Credit Suisse bankans. Frá 2010 hefur hann kennt kammertónlist við tónlistarakademíuna í Kronberg í Þýskalandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Martin Helmchen kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.