Martin Kuuskmann
Fagottleikari
Eistneski fagottsnillingurinn Martin Kuuskmann (f.1971) er talinn meðal fremstu flytjenda á hljóðfæri sitt í heiminum í dag. Hann hóf hljóðfæranám í Tallinn en stundaði framhaldsnám við Manhattan School of Music og Yale-háskólann í Bandaríkjunum. Hann hefur þrívegis hlotið tilnefningu til Grammy-verðlauna og hefur starfað með hljómsveitum á borð við Eistnesku þjóðarhljómsveitina, Kammerhljómsveitina í Tallinn og St. Lukes-kammersveitina. Hann hefur frumflutt ellefu fagottkonserta eftir mörg helstu tónskáld samtímans, m.a. Erkki-Sven Tüür, Christopher Theofanidis og Tõnu Kõrvits. Kuuskmann hefur komið fram sem einleikari með mörgum af helstu hljómsveitum heims, má þar nefna Útvarpssinfóníuna í Leipzig, Suisse Romande hljómsveitina, Sinfóníuhljómsveit Eistlands, Amerísku tónskáldahljómsveitina, St. Luke kammerhljómsveitina, Þjóðarhljómsveit Chile og Kammerhljómsveit Tallinn. Hann hefur komið fram sem einleikari í Carnegie Hall og var valinn til að leika Sequenza XII eftir Luciano Berio á tónleikum Fílharmóníusveitarinnar í New York árið 2008.
Kuuskmann hefur frá árinu 2008 verið fyrsti fagottleikari Eistnesku þjóðarhljómsveitarinnar undir stjórn Paavo Järvi. Hann leikur einnig kammertónlist, m.a. með píanistanum Kirill Gerstein sem er íslenskum tónleikagestum að góðu kunnur. Þá hefur hann einnig starfað með jazztónlistarmönnum á borð við John Patitucci og Joe Zawinul og leikið brasilíska tónlist með píanóleikaranum og tónskáldinu Jovino Santos. Hann hefur leikið inn á hljóðrit fyrir ERP, Simax, Erdenklang og Chesky Records, og hlutu hljóðritanir hans á fagottkonsertum Christopher Theofanidis og David Chesky tilnefningu til Grammy-verðlauna. Kuuskmann er prófessor í fagottleik við Lamont tónlistardeild Háskólans í Denver, Colorado og hefur áður kennt við Manhattan tónlistarskólann. Hann hefur mikinn áhuga á kennslu og haldið meistaranámskeið á fjölmörgum hátíðum og háskólum víða um heim.