EN

Matthew Halls

Hljómsveitarstóri

 

Breski hljómsveitarstjórinn og semballeikarinn Matthew Halls er vinsæll gestur hljómsveita og óperuhúsa og nýtur virðingar sem kraftmikill og líflegur túlkandi tónlistar allra tímabila tónlistarsögunnar. Hann gegnir nú stöðu listræns stjórnanda Bach-hátíðarinnar í Oregon fjórða árið í röð.

Norðuramerískar hljómsveitir sækjast í auknum mæli eftir kröftum hans og hefur hann m.a. stjórnað Calgaryfílharmóníunni, sinfóníuhljómsveitunum í Dallas, Houston og Seattle sem og hljómsveitunum í Cleveland og Fíladelfíu. Þá þreytti hann nýlega frumraun sína með Toronto-sinfóníunni í 9. sinfóníu Beethovens og sagði gagnrýnandi Toronto Star um flutninginn, að Halls hefði laðað fram kraftinn og spennuna sem áheyrendur hlytu að hafa upplifað við frumflutninginn fyrir næstum 200 árum.

Hápunktar starfsársins hjá Matthew Halls vestanhafs eru tónleikar í Lincoln Centre með Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg og tónleikar með Cleveland-hljómsveitini, Calgaryfílharmóníunni og sinfóníuhljómsveitunum í Milwaukee, Indianapolis og Cincinnati.

Í öðrum heimshlutum hefur Halls stjórnað hljómsveitinni Concentus Musicus í Vín, Konzerthaushljómsveitinni í Berlín, Konunglegu skosku þjóðarhljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni í Melbourne svo dæmi séu tekin. Þá stjórnar hann á þessu tónleikaári Konunglegu fílharmóníuhljómsveitinni í London, Vínarsinfóníunni og NDR-útvarpshljómsveitinni í Hamborg í fyrsta sinn.

Hljóðritanir hans sem hljómsveitarstjóra og semballeikara hafa unnið til verðlauna, m.a diskar með óperunni Parnasso in Festa eftir Händel ásamt The King's Consort fyrir Hyperion-hljómplötufyrirtækið og fjórir sembalkonsertar Bachs sem Halls lék og stjórnaði frá hljóðfærinu og voru gefnir út af Linn Records.

Matthew Halls sótti framhaldsmenntun sína í Háskólann í Oxford og gegnir nú fastri stöðu sem kennari við stofnunina. Þá vinnur hann reglulega með ungum tónlistamönnum á námskeiðum og í sumarskólum.