EN

Maxim Emelyanychev

Hljómsveitarstjóri

Rússneski hljómsveitarstjórinn Maxim Emelyanychev er fæddur árið 1988 og hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, ekki síst fyrir áhugaverða túlkun sína á tónlist barokksins. Hann lærði sitt fag í Nizhny Novogrod og síðar í Moskvu hjá Íslandsvininum Gennadíj Rosdestvenskíj og stjórnaði í fyrsta sinn atvinnuhljómsveit aðeins tólf ára gamall. Emelyanychev er einnig afburða semballeikari og margverðlaunaður sem slíkur, hlaut meðal annars fyrstu verðlaun í Musica Antica sembalkeppninni í Brugge árið 2010 og Volkonsky-sembalkeppninni í Moskvu sama ár. 

Emelyanychev hefur um árabil verið aðalstjórnandi ítalska barokkhópsins Il Pomo d’Oro, sem meðal annars hefur flutt barokkóperur í Versölum, Vínarborg og Lundúnum, en meðal nýjustu verkefna hans er geisladiskur með bandarísku söngstjörnunni Joyce DiDonato. Hann stjórnar þó einnig hefðbundnum sinfóníuhljómsveitum, meðal annars Finnsku útvarpshljómsveitinni og Þjóðarhljómsveit Spánar. Nýverið var tilkynnt að hann muni frá og með haustinu 2019 taka við stjórn Skosku kammersveitarinnar. Hann kemur nú fram á Íslandi í fyrsta sinn.