EN

Nina Stemme

Einsöngvari

Sænska sópransöngkonan Nina Stemme er löngu heimsþekkt fyrir túlkun sína á dramatískum hlutverkum, ekki síst í síðrómantískum óperum „Ríkharðanna“ Wagners og Strauss. Nafn hennar er tíðum nefnt í sömu andrá og þeirra Kirsten Flagstad og Birgit Nilsson og hún þykir bera áfram listrænan arf þessara miklu norrænu söngkvenna. Árið 2018 hlaut Stemme verðlaunin sem kennd eru við Nilsson, en þau eru ein mesta viðurkenning sem söngvurum getur hlotnast. 

Stemme vakti fyrst verulega athygli árið 1993 þegar hún sigraði í Operalia-keppninni sem tenórsöngvarinn Plácido Domingo stóð fyrir. Hún hefur á ferli sínum sungið í öllum helstu óperuhúsum heims og sópað til sín viðurkenningum. Hún fór í fyrsta sinn með hlutverk Ísoldar í óperu Wagners árið 2003 í Glyndeborne óperunni á Englandi undir stjórn Antonios Pappano. Domingo söng Tristan á móti henni og var flutningurinn gefinn út á plötu. Stemme hefur síðan tekið þátt í þremur öðrum hljóðritunum verksins, undir stjórn Jiřís Bělohlávek, Mareks Janowski og Franz Welser-Möst. Síðastnefndi flutningurinn var með kór og hljómsveit Vínaróperunnar en þar var Stemme útnefnd heiðursfélagi í hittifyrra og hún mun næst stíga þar á svið í desember þegar hún fer með hlutverk Klýtemnestru í óperunni Elektru eftir Richard Strauss.