EN

Olari Elts

Hljómsveitarstjóri

Eistneski hljómsveitarstjórinn Olari Elts hefur vakið mikla athygli fyrir áhugaverða tónleika með óvenjulega samsettum efnisskrám. Hann hefur stjórnað hljómsveitum á borð við Gewandhausorchester Leipzig, Dönsku þjóðarsinfóníuna og Finnsku útvarpshljómsveitina, og hvarvetna hlotið mikið lof fyrir túlkun sína. Meðal helstu samverkamanna hans í tónlistinni má nefna Jean-Efflam Bavouzet, Isabelle Faust, Martin Grubinger, Stephen Hough og Baibu Skride.

Á nýliðnu tónleikaári kom Elts fram í fyrsta sinn með hátíðarhljómsveitinni í Búdapest, BBC-sinfóníunni og Útvarpshljómsveitinni í Frakklandi, svo nokkur dæmi séu tekin. Hann hefur hljóðritað fjölda geisladiska, meðal annars verk eftir Erkki-Sven Tüür fyrir Ondine-forlagið og sinfóníu nr. 5 eftir Poul Ruders fyrir Bridge Records.

Elts hefur einnig stjórnað fjölmörgum óperum, meðal annars Évgéní Ónegin, Don Giovanni og Idomeneo. Hann er listrænn stjórnandi Kymi-sinfóníettunnar og aðalgestastjórnandi Eistnesku þjóðarsinfóníuhljómsveitarinnar. Einnig var hann aðalgestastjórnandi Fílharmóníusveitar Helsinki frá 2011–2014 og Skosku kammersveitarinnar frá 2007–2010. Elts hefur einu sinni áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum, árið 2003 og var Víkingur Heiðar Ólafsson þá einleikari.