EN

Olga Kern

Píanóleikari

Margt getur breyst á fjórum árum. Þetta fékk Olga Kern að reyna með þátttöku sinni í Van Cliburn-keppninni í Texas. Hún tók fyrst þátt árið 1997 og stefndi vitaskuld á verðlaunasæti en komst ekki lengra en í undanúrslit. Hún sneri aftur til dauflegrar tilverunnar í Moskvu þar sem hún stundaði píanónám og deildi íbúðarkytru með foreldrum sínum.

Þegar Olga sneri aftur til Texas fjórum árum síðar hafði líf hennar tekið stakkaskiptum. Hún hafði æft af kappi, eignast son og tekið eftirnafn móður sinnar sem er óneitanlega þjálla en upphaflegt eftirnafn hennar, Pushechnikova. Hún var tilbúin í slaginn. „Ég breytti öllu, af því að mig langaði til að eignast nýtt líf. Ég var verulega óánægð með líf mitt,“ sagði hún síðar í viðtali. Ekki þurfti ekki að spyrja að viðtökunum. Olga Kern varð fyrsta konan í 30 ára sögu keppninnar til að fara heim með gullmedalíuna og í kjölfarið biðu hennar tónleikar um allan heim.

Olga Kern hefur komið fram í flestum helstu tónleikasölum austan hafs og vestan, meðal annars La Scala í Mílanó, Festspielhaus í Salzburg og Carnegie Hall í New York, og kom fram ásamt sópransöngkonunni Renée Fleming á hátíðartónleikum í Washington, D.C. til heiðurs Van Cliburn árið 2004. Á nýliðnu tónleikaári kom hún meðal annars fram með Fílharmóníunni í Moskvu og lék með Skosku þjóðarhljómsveitinni á tónleikaferð þeirra um Bandaríkin. Kern hefur kennt við Manhattan School of Music frá árinu 2017 og hefur setið í fjölmörgum dómnefndum virtra tónlistarkeppna.

Olga Kern hefur tvívegis áður leikið á Íslandi. Hún kom fram á Listahátíð í Reykjavík árið 1992, þá aðeins fimmtán ára gömul, ásamt fjórum öðrum rússneskum undrabörnum í tónlist, meðal annars bróður sínum sem er ári yngri og er trompetleikari. Olga Pushechnikova vakti athygli fyrir glæsilegan leik sinn í ferðinni en líklega hefur fáa íslenska tónleikagesti grunað að hún ætti með tíð og tíma eftir að verða ein af stórstjörnum píanóheimsins. Hún kom síðan aftur til landsins árið 2009 og lék píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov við frábærar undirtektir tónleikagesta.