EN
  • pekka_kuusisto

Pekka Kuusisto

Einleikari

 

Finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto (f. 1976) hóf að læra á fiðlu þriggja ára gamall og nam síðar við Sibeliusarakademíuna og Indiana University School of Music. Hann hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Sibeliusar-fiðlukeppninni árið 1995, fyrstur landa sinna. Hann hefur komið fram með hljómsveitum um allan heim, m.a. í Birmingham og Toronto, með Kammerhljómsveit Evrópu og Bandarísku þjóðarhljómsveitinni í Washington D.C. Hann hefur gegnt stöðu staðarlistamanns við hina virtu listahátíð í Aldeburgh á Englandi og sömuleiðis við Concertgebouw í Amsterdam. Hann stjórnar hljómsveitum auk þess að leika sjálfur, hefur m.a. stýrt Þýsku kammerfílharmóníunni í Bremen á tónleikaferðalagi um Suður-Ameríku.

Kuusisto er sérlegur áhugamaður um nýja tónlist og fersk nálgun hans hefur vakið athygli og aðdáun víða um heim. Hann starfar náið með tónskáldum, til dæmis Nico Muhly og Thomas Adès. Kuusisto hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2013 og í greinargerð dómnefndar sagði að hann hefði náð „fullkomnu valdi á tækni og tjáningu – allt frá flóknu virtúósaspili til hins einfalda sem snertir mann djúpt“. Kuusisto er heimavanur á Íslandi. Hann lék einleik Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands 2004 og aftur 2014, var einn aðalkennara tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið á Ísafirði 2008 og hefur komið fram á Midsummer Music-hátíðinni í Hörpu.

Kuusisto frumflutti fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar í Hollywood Bowl ásamt Fílharmóníusveit Los Angeles og Gustavo Dudamel í ágúst 2017 og hefur síðan leikið konsertinn m.a. í Royal Festival Hall með hljómsveitinni Fílharmóníu undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Í kjölfar tónleikanna á Íslandi verður flutningur hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritaður og gefinn út hjá forlaginu Sono Luminus. Kuusisto leikur á Stradivarius-fiðlu sem hann hefur að láni hjá Beare’s International Violin Society.