EN

Petri Sakari

Hljómsveitarstjóri

Petri Sakari stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn í október árið 1986 og mörkuðu þeir tónleikar upphaf gifturíks sambands hans við hljómsveitina, íslenskt tónlistarlíf og landið sjálft. Árið 1988 tók hann við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og gegndi henni til 1993 og síðan aftur á árunum 1996 til 1998 en í millitíðinni var hann aðalgestastjórnandi hljómsveitarinnar. Á þessu hartnær 30 ára tímabili hefur Petri Sakari stjórnað hljómsveitinni á samtals 160 tónleikum, í Reykjavík og víðsvegar um landið en einnig í Helsinki og nokkrum öðrum borgum Finnlands, í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Þá var hann við stjórnvölinn í ferð hljómsveitarinnar til Grænlands árið 1997. Fjölmargir geisladiskar Sinfóníuhljómsveitarinnar hjá Chandos- og Naxos-útgáfunum undir stjórn Sakaris vöktu mikla athygli og öfluðu hljómsveitinni alþjóðlegra vinsælda og virðingar.

Petri Sakari hóf fiðlunám átta ára gamall og innritaðist ári síðar í tónlistarháskólann í Tampere, þar sem píanó og óbó bættust við hljóðfæragreinarnar.

Hann hóf hljómsveitarstjóraferil sinn aðeins sautján ára að aldri og stjórnaði á námsárum sínum meðal annars Sinfóníuhljómsveit Tampere-tónlistarháskólans og óperusýningum í Sibeliusarakademíunni þar sem aðalkennari hans var Jorma Panula. Frá árinu 1983 hefur hann stjórnað öllum helstu hljómsveitum Finnlands, svo sem Finnsku útvarpshljóm- sveitinni og Lahti-sinfóníunni. Hann var aðalstjórnandi Lohja-sinfóníunnar í Finnlandi 1993-1996, aðalgestastjórnandi Sænsku kammersveitarinnar 1995-1997 og einnig aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle í Svíþjóð. Þá var hann aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Turku í Finnlandi til ársins 2012.

Petri Sakari hefur á ferli sínum látið að sér kveða sem óperustjórnandi og þótti túlkun hans á óperu Gunnars Þórðarsonar um örlög Ragnheiðar biskupsdóttur mjög áhrifamikil.