EN

Pietari Inkinen

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen er íslenskum að góðu kunnur og hefur stýrt mörgum eftirminnilegum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nýverið tók hann við stöðu aðalstjórnanda hjá Þýsku útvarpsfílharmóníunni auk þess sem hann stjórnar Fílharmóníusveitinni í Japan og Sinfóníuhljómsveitinni í Prag. Þá er hann fastagestur við margar fremstu hljómsveitir heims. Áður gegndi hann sömu stöðu hjá Sinfóníuhljómsveit Nýja-Sjálands og hann er nú heiðursstjórnandi þeirrar sveitar.

Inkinen hefur komið fram sem gestastjórnandi með fjölmörgum hljómsveitum og má þar nefna Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam, Hátíðarhljómsveitina í Búdapest, Staatskapelle Dresden, Útvarpshljómsveitina í Bæjaralandi, La Scala í Mílanó, BBC Sinfóníuhljómsveitina, Sinfóníuhljómsveitina í Birmingham og Fílharmóníuhljómsveitina í Los Angeles. Inkinen hefur einnig starfað með heimsþekktum einleikurum á borð við Hilary Hahn, Jean-Yves Thibaudet, Pinchas Zukerman og Nikolaj Znaider. Hann hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda fyrir hljóðritanir sínar á sinfóníum Sibeliusar fyrir Naxosútgáfufyrirtækið. Hann stjórnaði hátíðartónleikum í Finnsku þjóðaróperunni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Finnlands.  

Inkinen hefur einnig látið að sér kveða sem óperustjórnandi, meðal annars í uppfærslum af Niflungahring Wagners og Meistarasöngvurunum frá Nürnberg við óperuhúsið í Melbourne. Einnig hefur hann stjórnað óperusýningum m.a. við La Monnaie í Brussel, Staatsoper í Berlín og Bæversku þjóðaróperuna í München.

Inkinen er fiðluleikari að mennt og nam hjá Zakhar Bron við tónlistarháskólann í Köln. Hann hefur komið fram sem einleikari með mörgum helstu hljómsveitum Finnlands og lék fiðlukonsert Sibeliusar með Fílharmóníuhljómsveitinni í Helsinki þegar þess var minnst að öld var liðin frá því að hljómsveitin flutti verkið í fyrsta sinn. Inkinen leikur einnig kammertónlist og hefur komið víða fram með Inkinen-tríóinu.

Inkinen hefur alloft stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með góðum árangri, síðast vorið 2015.