EN

Pietari Inkinen

Hljómsveitarstjóri

Finninn Pietari Inkinen er í fremstu röð hljómsveitarstjóra samtímans, rómaður fyrir stórhuga túlkun og afburða tækni. Hann hefur stjórnað mörgum helstu hljómsveitum heims eins og Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, Sinfóníuhljómsveit bæverska útvarpsins, Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig, Accademia Nazionale di Santa Cecilia í Róm, Fílharmóníusveit franska útvarpsins, Sinfóníuhljómsveitinni í Sydney, Clevelandhljómsveitinni og Fílharmóníusveit Los Angeles, svo nokkrar séu nefndar. 

Tónlist Wagners hefur skipað ríkulegan sess á ferli Inkinens. Hann stýrði Niflungahringnum í tvígang (2013 og 2016) við mikinn orðstír hjá Áströlsku óperunni í Melbourne og snéri þangað aftur haustið 2018 til þess að stjórna Meistarasöngvurunum frá Nürnberg. Sumarið 2023 stýrði hann hinni nýju uppfærslu Hringsins á Wagner-hátíðinni í Bayreuth og í vor þreytti hann frumraun sína í Sviðslistamiðstöðinni í Beijing í Kína þar sem hann stjórnaði Valkyrjunni í nýrri uppfærslu Davides Livermore. Tónleikauppfærslur á verkum Wagners hafa einnig verið snar þáttur í starfi Inkinens og hann stjórnaði einmitt Wagnertónleikum Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki í liðinni viku. Þá vann hann með tenórsöngvaranum Simon O’Neill og Sinfóníuhljómsveit Nýja-Sjálands að rómuðum Wagnerdiski fyrir EMI-útgáfuna árið 2010. Nýjasta hljóðritun Inkinens er með Fílharmóníusveit þýska útvarpsins (DRP) þar sem hann stjórnar verkum eftir Antonín Dvořák. 

Pietari Inkinen er íslenskum áheyrendum að góðu kunnur því hann hefur stýrt allnokkrum eftirminnilegum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, síðast í janúar 2020. Hann er einnig fiðluleikari, iðkar kammertónlist og hefur oft stjórnað hljómsveitum frá einleikarapallinum. Árið 2023 var gerð um hann heimildarmyndin Ein Taktstock und ein Reisepass (Tónsproti og vegabréf).