EN

Radek Baborák

Hornleikari

 

Tékkneski hornleikarinn Radek Baborák hefur um árabil verið einn fremsti hornleikari heims. Hann fæddist inn í tónlistarfjölskyldu og hóf að læra á horn átta ára gamall. Tólf ára hreppti hann fyrstu verðlaun í konsertakeppni Tékkneska útvarpsins og þremur árum síðar var hann meðal verðlaunahafa í keppninni Vorið í Prag. Baborák var aðeins 18 ára gamall þegar hann hreppti stöðu fyrsta hornleikara í Fílharmóníuhljómsveit Tékklands. Frá árunum 1996–2000 lék hann fyrsta horn í Fílharmóníuhljómsveitinni í München og 2000–2002 gegndi hann sömu stöðu í Sinfóníuhljómsveitinni í Bamberg. Frá 2002–2011 var hann fyrsta horn í Fílharmóníuhljómsveit Berlínar og kom einnig fram sem einleikari með sveitinni, lék m.a. Serenöðu Brittens ásamt Ian Bostridge tenórsöngvara og Simon Rattle, og hornkonsert Mozarts í D-dúr með Barenboim. Hann starfar nú sjálfstætt sem einleikari og heldur tónleika víða um heim. 

Baborák hefur komið fram sem einleikari með mörgum þekktum hljómsveitum, meðal annars Fílharmóníuhljómsveit Lundúna, Bæversku útvarpshljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveitinni í Bamberg, Fílharmóníuhljómsveit Tékklands, Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín og Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg. Þá hefur hann komið fram í sjónvarpsþáttum og hljóðritað fjölda geisladiska. Meðal stjórnenda sem hann hefur starfað með má nefna Daniel Barenboim, Seiji Ozawa, Simon Rattle, James Levine og Vladimir Ashkenazy.

Baborák hefur einnig komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim, meðal annars á Páskahátíðinni í Salzburg, Maggio musicale í Flórens, Hvítum nóttum í Sankti Pétursborg og Kammertónlistarhátíðinni í Jerúsalem. Hann flytur gjarnan kammertónlist og hefur meðal annars komið fram á tónleikum með András Schiff, Yefim Bronfman, Denis Kozhukhin, Janine Jansen, Ian Bostridge og Thomas Quasthoff.