EN

Rafael Payare

Hljómsveitarstjóri

Rafael Payare er fæddur í Venesúela árið 1980. Hann stundaði tónlistarnám í hinu fræga skólakerfi El sistema og var um skeið fyrsti hornleikari í Simón Bolívar-hljómsveitinni. Hann var um skeið aðstoðarstjórnandi Claudios Abbado og Daniels Barenboim, en vakti fyrst heimsathygli þegar hann hlaut fyrstu verðlaun í Malko-hljómsveitarstjórakeppninni í Kaupmannahöfn árið 2012.

Payare var valinn aðalstjórnandi Ulster-hljómsveitarinnar á Norður-Írlandi árið 2014 og haustið 2019 tekur hann við stöðu aðalstjórnanda við Sinfóníuhljómsveitina í San Diego. Meðal hápunkta tónleikaársins 2018–19 má nefna tónleika með hljómsveitinni Fílharmóníu, Fílharmóníusveit Stokkhólms og Dönsku þjóðarhljómsveitinni. Hann hefur komið fram á tónleikum með heimsfrægum einleikurum, til dæmis Daniil Trifonov, Jean-Yves Thibaudet, Nikolai Lugansky og Alisu Weilerstein.