EN

Richard Goode

Píanóleikari

„Einhver magnaðasti tónaseiður sem ég hef upplifað lengi,“ sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins eftir tónleika bandaríska stórpíanistans Richards Goode í Hörpu vorið 2015. Goode hefur um áratuga skeið verið í hópi fremstu tónlistarmanna Bandaríkjanna og er sérlega dáður fyrir túlkun sína á tónlist klassíska og rómantíska skeiðsins. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir leik sinn og hljóðritanir, og nýverið skrifaði tónlistarrýnir New York Times að tónleikar hans í Carnegie Hall hafi einkennst af „stórbrotinni og djúpri túlkun“.

Goode hefur komið fram með ótal heimsþekktum hljómsveitum, meðal annars lék hann á síðasta ári með Cleveland-hljómsveitinni, Fílharmóníusveitum Los Angeles, Lundúna og Ósló, auk þess að halda einleikstónleika m.a. í Lundúnum og Lincoln Center í New York. Hann hefur hljóðritað alla píanókonserta Beethovens með Budapest Festival Orchestra og Ivan Fischer, og hlaut sú útgáfa Grammy-tilnefningu. Hljóðritun hans á öllum píanósónötum Beethovens vakti heimsathygli þegar hún kom út hjá forlaginu Nonesuch fyrir 25 árum.

Goode er borinn og barnfæddur New York-búi, og lærði m.a. hjá Rudolf Serkin við Curtis-tónlistarháskólann. Hann vann til fyrstu verðlauna í keppni sem kennd er við Clöru Haskil, og hlaut Grammy-verðlaun fyrir hljóðritun sína á klarínettsónötum Brahms ásamt Richard Stoltzman. Hann var listrænn stjórnandi Marlboro-skólans og hátíðarinnar ásamt Mitsuko Uchida frá 1999–2013. Goode kemur nú fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn, og leikur Goode einn af síðustu píanókonsertum Mozarts, saminn árið 1786 þegar tónskáldið stóð á hátindi ferils síns.