EN

Ryan Bancroft

Hljómsveitarstjóri

Bandaríski hljómsveitarstjórinn Ryan Bancroft ólst upp í Los Angeles og hóf tónlistarnám sitt þar sem trompetleikari. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn í Skotlandi og Hollandi og stal senunni í Malko-hljómsveitarstjórakeppninni í Kaupmannahöfn árið 2018, þar sem bæði fyrstu verðlaun og áheyrendaverðlaun féllu honum í skaut. Bancroft tók í fyrra við stöðu aðalstjórnanda Þjóðarhljómsveitar BBC í Wales, og tónleikarýnir The Guardian sagði nýverið að sem stjórnandi hafi hann „bæði kraft og þokka“ og að túlkun hans hafi verið „ótrúlega áhrifarík og fögur“. Þá er Bancroft „listamaður í samstarfi“ hjá Tapiola-sinfóníettunni í Finnlandi frá hausti 2021.

Bancroft hefur stjórnað fjölda hljómsveita í Evrópu og Bandaríkjunum, meðal annars Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi, Sænsku útvarpshljómsveitinni, Dönsku þjóðarhljómsveitinni og Fílharmóníusveit Rotterdam. Þá hefur hann stjórnað Sinfóníuhljómsveitunum í Atlanta, Seattle og Toronto, og mun á næstunni koma fram í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveitunum í Baltimore, Birmingham og Gautaborg. Hann stjórnar nú á Íslandi í fyrsta sinn.