EN
  • Sally_Matthews

Sally Matthews

Einsöngvari

 

Sally Matthews er ein af eftirsóttustu sópransöngkonum heims. Hún stundaði nám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum og þreytti frumraun sína við Konunglegu óperuna í Covent Garden árið 2001 í hlutverki Nannettu í Falstaff eftir Verdi. Síðan hefur hún sungið mörg hlutverk í Covent Garden, meðal annars í Mozart- óperunum Mitridate (Sifare) og Così fan tutte (Fiordiligi). Hún hefur einnig sést reglulega á sviði La Monnaie óperunnar í Brussel, Hollensku þjóðaróperunnar, Theater an der Wien og Glyndebourne óperunnar þar sem hún hefur til dæmis sungið hlutverk greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós og Konstönzu í Brottnáminu úr kvennabúrinu.

Í fyrrasumar kom Matthews í fyrsta sinn fram á Salzburgar- hátíðinni þegar hún skóp hlutverk Silviu í óperu Thomasar Adès The Exterminating Angel sem frumflutt var á hátíðinni. Í kjölfarið hefur hún sungið hlutverkið í Metropolitan óperunni í New York og í Covent Garden.

Sally Matthews hefur sungið með ýmsum fremstu sinfóníu- hljómsveitum álfunnar, svo sem Philharmonia hljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Fílharmóníusveitum Berlínar og Rotterdam og Útvarpshljómsveitinni í Bæjaralandi. Á verkefnalista hennar má t.a.m. finna sinfóníur Mahlers (nr. 2, 4 og 8), Vier letzte Lieder eftir Richard Strauss, Þýska sálumessu Johannesar Brahms og Sköpunina og Árstíðirnar eftir Haydn, og af hljómsveitarstjórum sem hún hefur unnið með má nefna Antonio Pappano, Bernard Haitink, Simon Rattle, Daniel Harding, Robin Ticciati og François-Xavier Roth. Á liðnu sumri söng hún með Sinfóníuhljómsveit Breska ríkisútvarpsins í Hibiki eftir Mark-Anthony Turnage á Proms tónlistarhátíðinni, undir stjórn Kazushi Ono, og var það frumflutningur verksins í Evrópu.

Matthews heldur einnig tónleika með píanóleikaranum Simon Lepper og hafa þau meðal annars komið fram í Wigmore Hall í Lundúnum og í Concertgebouw í Amsterdam.