EN

Senja Rummukainen

Einleikari

Senja Rummukainen (1994) vakti fyrst athygli þegar hún hlaut fyrstu verðlaun í sellókeppninni í Turku árið 2014. Hún komst skömmu síðar í úrslit í alþjóðlegu Guilhermina Suggia-keppninni í Portúgal og í úrslit í alþjóðlegu Tsjajkovskíj keppninni árið 2019; þar með var hún svo sannarlega komin á kortið.

Senja Rummukainen hefur verið nemandi ýmissa þekktra sellóleikara, nú síðast Jens Peter Maintz við tónlistarháskólann í Berlín en þar áður Marko Ylönen, Taru Aarnio, Truls Mørk og Young-Chang Cho.Hún hefur komið víða fram sem einleikari, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit BBC, hljómsveit Marinskíj-leikhússins í Sankti Pétursborg og Fílharmóníuhljómsveitinni í Kraká og öllum helstu hljómsveitum Finnlands: Fílharmóníuhljómsveitinni í Helsinki, Fílharmóníuhljómsveitinni í Tampere, Sinfóníettu Tapíóla og Fílharmóníuhljómsveitinni í Turku. Hún hefur starfað með hljómsveitarstjórum eins og Sakari Oramo, Nicholas Collon, Leif Segerstam, Jonathon Heyward, Dima Slobodiniouk og Jorma Panula, bæði innan Finnlands og utan.

Senja Rummukainen hefur líka verið ötull flytjandi kammertónlistar og er mjög þekkt í því hlutverki innan Finnlands. Hún hefur tekið þátt í helstu kammertónlistarhátíðum landsins, t.d. kammertónlistarhátíðinni í Kuhmo og tónlistarhátíðunum í Turku og Uleå. Hún hefur einnig verið listrænn stjórnandi Kamerikesä-hátíðarinnar í Helsinki. Árið 2022 kom hún fram á Klassísku vorhátíðinni í Vevey í Sviss, sem er helguð því að koma ungum tónlistarmönnum á framfæri. Á starfsárinu 2023–2024 kemur hún meðal annars fram með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar, Fílharmóníuhljómsveitinni í Malaga – og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sellóið sem hún leikur á er smíðað af Giovanni Grancino árið 1698. Hljóðfærið er í eigu Finnska listasjóðsins sem hefur það hlutverk að styðja við framgang listgreina, jafnt tónlist sem myndlist.