EN

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir

Fiðluleikari

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1994 og hóf fiðlunám átta ára gömul hjá Önnu Rún Atladóttur. Í framhaldi lærði hún hjá Ara Þór Vilhjálmssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík og Guðnýju Guðmundsdóttur við Listaháskóla Íslands. Hún stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Erichs Höbarth. Sólveig Vaka hefur spilað með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi, þar á meðal CAPUT og Barokkbandinu Brák, og hún er einn stofnmeðlima kammersveitarinnar Elju. Frá árinu 2010 hefur hún sungið með Hamrahlíðarkórunum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Einnig hefur hún spilað með tónlistarmanninum Ólafi Arnalds frá árinu 2015, bæði í upptökum sem og á tónleikum víðsvegar um heiminn. Sólveig Vaka hefur sótt tíma hjá ýmsum fiðluleikurum síðastliðin ár, má þar nefna Tönju Becker-Bender, Ingolf Turban og Elfu Rún Kristinsdóttur. Sólveig Vaka leikur á fiðlu sem Hans Jóhannsson smíðaði fyrir hana í Reykjavík árið 2010.