EN

Söngsveitin Fílharmónía

Þegar Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð fyrir nærri 60 árum voru aðstæður til tónlistarflutnings ólíkar því sem nú gerist. Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði þá starfað í tíu ár og þótti áhugafólki og atvinnumönnum nauðsynlegt að stofna kór sem ætlað væri að flytja stór kórverk með hljómsveitinni. Dr. Róbert A. Ottósson gegndi þá forystuhlutverki í tónlistarlífi á Íslandi og fyrir tilstilli hans og annarra var komið á fót félaginu Fílharmóníu, sem skömmu síðar stofnaði Söngsveitina. 

Fyrstu tónleikar Fílharmóníu og Sinfóníuhljómsveitarinnar voru haldnir í Þjóðleikhúsinu vorið 1960 og var Carmina Burana þá frumflutt hér á landi. Kórinn hefur í samstarfi við Sinfóníuhljómsveitina tekið þátt í flutningi fjölmargra sígildra verka eftir meistara tónbókmenntanna eins og Beethoven, Bach, Brahms, Händel, Haydn og Mozart. Stjórnandi Fílharmóníu frá árinu 2006 er Magnús Ragnarsson.