EN

Stephen Hough

Píanóleikari

Stephen Hough er einn virtasti og fjölhæfasti píanóleikari samtímans. Hann var fyrsti klassíski tónlistarmaðurinn til að hljóta hin eftirsóttu MacArthur-verðlaun árið 2001, hlaut viðurkenningu Royal Philharmonic Society 2010 og var sæmdur riddarakrossi (CBE) af Elísabetu Bretadrottningu árið 2014. Hann hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitum heims og haldið einleikstónleika í London, New York (Carnegie Hall og Lincoln Center), París og Hong Kong, og komið fram í sjónvarpi með Berlínarfílharmóníunni og Sir Simon Rattle. Hann hefur einnig komið fram á fjölda tónlistarhátíða, m.a. í Aldeburgh, Edinborg, Salzburg og Tanglewood. Auk þess hefur hann komið fram yfir 20 sinnum á Proms-hátíð Breska ríkisútvarpsins.

Hough hefur hljóðritað yfir 50 geisladiska sem hafa hlotið ótal verðlaun, til dæmis Deutsche Schallplattenpreis, Diapason d’Or, nokkrar Grammy-tilnefningar og átta Gramophone-verðlaun, m.a. geisladisk ársins 1996 og 2003. Meðal nýjustu diska hans eru Lýrísk stykki eftir Grieg, einleiksdiskur með tónlist eftir Skrjabín og Janáček, og konsertar eftir Dvořák og Schumann ásamt Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham og Andris Nelsons.

Hough er einnig tónskáld og hefur samið verk fyrir hljómsveit, kór, kammerhópa og einleikspíanó. Þá er hann rithöfundur og skrifar reglulega um tónlist í The Guardian, The Times, Gramophone og BBC Music Magazine. Hann er búsettur í Lundúnum og gegnir prófessorsstöðum í píanóleik við Royal Academy of Music og við Juilliard-tónlistarháskólann í New York. Hough hefur tvisvar sinnum áður leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, píanókonsert nr. 4 eftir Camille Saint-Saëns árið 2006 og Paganini-rapsódíu Rakhmanínovs árið 2017.