EN

Stephen Hough

Listamaður í samstarfi

Stephen Hough er einn virtasti og fjölhæfasti píanóleikari samtímans. Hann var fyrsti klassíski tónlistarmaðurinn til að hljóta hin eftirsóttu MacArthur-verðlaun (2001), var gerður að heiðursfélaga í Royal Philharmonic Society (2016) og var sæmdur riddarakrossi (CBE) af Elísabetu Bretadrottningu árið 2014. Þá var hann útnefndur einn af 20 helstu fjölfræðingum veraldar af tímaritinu The Economist. 

Hann hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitum heims og haldið einleikstónleika í Lundúnum, New York (Carnegie Hall og Lincoln Center), París, Hong Kong og Sidney, og m.a. komið fram í sjónvarpi með Berlínarfílharmóníunni og Sir Simon Rattle. Hann hefur einnig komið fram á fjölda tónlistarhátíða, m.a. í Aldeburgh, Edinborg, Salzburg og Tanglewood. Þá hefur hann komið fram 25 sinnum á PROMS-tónlistarhátíð Breska ríkisútvarpsins (BBC). 

Hough hefur hljóðritað yfir 60 geisladiska sem hafa hlotið ótal verðlaun. Hann er einnig afkastamikið tónskáld og mikilsvirtur rithöfundur og skrifar reglulega um tónlist í The Guardian, The Times, Gramophone og BBC Music Magazine.