EN

Thomas Søndergård

Hljómsveitarstjóri

Danski hljómsveitarstjórinn Thomas Søndergård var í júlí 2022 útnefndur eftirmaður Osmos Vänskä sem tónlistarstjóri og stjórnandi Minnesota-hljómsveitarinnar og gegnir hann sömu stöðu hjá Konunglegu skosku þjóðarhljómsveitinni. Frá 2012–2018 var hann aðalhljómsveitarstjóri BBC þjóðarhljómsveitarinnar í Wales og þar á undan var hann aðalhljómsveitarstjóri og tónlistarráðgjafi Norsku útvarpshljómsveitarinnar.

Meðal þekktra hljómsveita sem hann hefur unnið með eru Berlínarfílharmónían, Mahler-kammerhljómsveitin, Gewandhaushljómsveitin í Leipzig, Sinfóníuhljómsveit breska útvarpsins (BBC) og Franska þjóðarhljómsveitin. Þá hefur hann stjórnað mörgum helstu hljómsveitum í Skandinavíu. Vestanhafs hefur hann meðal annars unnið með sinfóníuhljómsveitunum í Chicago, Cleveland, Cincinnati, Montreal, Toronto og Vancouver sem og Sinfóníuhljómsveitinni í Sydney í Ástralíu og Nýsjálensku sinfóníunni.
Thomas Søndergård þreytti frumraun sína í Konunglegu dönsku óperunni sem stjórnandi óperu Pouls Ruders Réttarhöldin eftir sögu Franz Kafka og hefur síðan þá stjórnað þar fjölmörgum óperusýningum. Þá hefur hann stjórnað við Norsku óperuna, Konunglegu sænsku óperuna, Ríkisóperuna í Stuttgart og við Þýsku óperuna í Berlín stjórnaði hann frumflutningi á óperunni Edward II eftir svissneska tónskáldið Andrea Lorenzo Scartazzini.

Nú í apríl var Søndergård í fyrsta sinn gestur Fílharmóníuhljómsveitarinnar í New York og stjórnaði meðal annars bandarískum frumflutningi á verki austurríska tónskáldsins Olgu Neuwirth Keyframes for a Hippogriff fyrir hljómsveit, kontratenór og barnakór.