EN

Tim Mead

Einsöngvari

Enski kontratenórinn Tim Mead hefur hlotið mikið lof fyrir hlýja, þétta rödd sína og heillandi túlkun. Hann stundaði nám við King’s College í Cambridge og hlaut síðan styrk til framhaldsnáms við Royal College of Music í Lundúnum. Hann syngur jöfnum höndum barokktónlist og hlutverk í nútímaóperum. Af þeim síðarnefndu má nefna titilhlutverkið í Akhnaten eftir Philip Glass og Oberon í A Midsummer Night’s Dream eftir Benjamin Britten. Í barokktónlist hefur Mead ekki síst lagt sig eftir verkum Händels. Hann hefur til að mynda sungið titilhlutverkin í óperunum Júlíusi Sesar og Admeto, Ottone í Agrippinu, Hamor í Jephtha,  Bertarido í Rodelindu og Goffredo og Eustazio í Rinaldo og tekið þátt í flutningi á mörgum af óratoríum tónskáldsins, svo sem Messíasi, Júdasi Makkabeusi, Salómon, Sál, Semele og Theodóru. Hann syngur titilhlutverkið í óperu Händels, Amadigi, á nýrri hljómplötu sem kom út á vegum Chandos útgáfunnar nú í september, og í janúar er von á plötunni Sacroprofano þar sem hann flytur verk eftir Antonio Vivaldi ásamt Arcangelo-sveitinni undir stjórn Jonathans Cohens.

Mead hefur komið fram með ótal hljómsveitum og unnið með mörgum fremstu túlkendum barokktónlistar. Auk Arcangelo og Jonathans Cohen má nefna William Christie og Les Arts Florissants, Christian Curnyn og Early Opera Company, Akademie für Alte Musik Berlin, Raymond Leppar, Mark Minkowski, Raphaël Pichon, Harry Christophers og Masaaki Suzuki.