EN

Vadim Gluzman

Fiðluleikari

Fiðluleikarinn Vadim Gluzman er tvímælalaust einn fremsti fiðluleikari samtímans. Hann hefur komið fram með Fílharmóníusveit Berlínar, sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og Lundúnum, og Concertgebouw-sveitinni í Amsterdam. Þá hefur hann komið fram á tónlistarhátíðunum í Lockenhaus, Ravinia, Tanglewood og Verbier við frábærar undirtektir.

Á nýliðnu tónleikaári kom Gluzman meðal annars fram með Cleveland-hljómsveitinni, Fílharmóníusveitinni í Bergen og NHK-hljómsveitinni í Tókýó. Hann minntist þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu fiðluleikarans Henryk Szeryng með tónleikum með NDR-Elbphilharmonie-hljómsveitinni og Þýsku útvarpsfílharmóníunni, en árið 1994 hlaut Gluzman verðlaun sem kennd eru við Szeryng. Á tónleikum sínum notar Gluzman boga úr safni Szeryngs, sem áður var í eigu fiðluleikarans og tónskáldsins Eugène Ysaÿe.

Gluzman hefur frumflutt fjölmörg verk á undanförnum árum, meðal annars eftir Leru Auerbach, Giya Kancheli og Sofiu Gubaidulinu, en hann er almennt talinn einn helsti flytjandi verksins Offertorium á heimsvísu. Meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið fyrir hljóðritanir sínar má nefna Diapason d'Or-verðlaunin, auk þess sem diskar hans hafa verið valdir útgáfur mánaðarins hjá Gramophone, The Strad og BBC Music Magazine.

Gluzman fæddist í Sovétríkjunum árið 1973 og hóf fiðlunám sjö ára gamall. Hann fluttist til Ísraels árið 1990 og hélt áfram námi við Juilliard-tónlistarháskólann í New York, meðal annars hjá hinum víðfræga kennara Dorothy DeLay. Gluzman er staðarlistamaður við Peabody-tónlistarháskólann í Baltimore og kennir við Keshet Eilon-tónlistarmiðstöðina í Ísrael. Hann leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1690 sem áður var í eigu Leopolds Auer og hann hefur í góðfúslegu láni frá Stradivari-félaginu í Chicago.