EN

Viviane Hagner

Fiðluleikari

Þýski fiðluleikarinn Viviane Hagner (f. 1977) þreytti frumraun sína aðeins þrettán ára gömul á sögulegum, sameiginlegum tónleikum fílharmóníuhljómsveita Ísraels og Berlínar undir stjórn Zubins Metha. Síðan þá hefur hún verið tíður gestur helstu hljómsveita heimsbyggðarinnar, m.a. Berlínarfílharmóníunnar, Sinfóníuhljómsveitanna í Boston og Chicago, New York-fílharmóníunnar, Cleveland-hljómsveitarinnar, Gewandhaus-hljómsveitarinnar í Leipzig og fílharmóníuhljómsveitanna í  München og London. Meðal hljómsveitarstjóra sem hún hefur unnið með eru Claudio Abbado, Vladimir Ashkenazy, Daniel Barenboim, Ricardo Chailly, Christoph Eschenbach, Lorin Maazel og Pinchas Zukerman. Undanfarið hefur hún leikið með Tonhalle-hljómsveitinni í Zürich undir stjórn Davids Zinman, Stokkhólmsfílharmóníunni með Sakari Oramo, Bambergersinfóníunni með Jonatan Nott og Sinfóníuhljómsveitinni í Montreal undir stjórn Kents Nagano.


Verkalisti Viviane Hagner er einkar ríkulegur og forvitnilegur enda prýða hann fiðluverk frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar. Þar er að finna helstu einleikskonserta frá Bach til Berg en einnig konserta eftir Goldmark, Hartmann, Szymanowski, Gubaidulina, Hartmann, Lutosławski og Penderecki. Árið 2002 frumflutti hún fiðlukonsert Unsuks Chin með Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín undir stjórn Kents Nagano og uppskar flutningurinn Grawemeyer-verðlaunin. Verkið var síðar gefið út á geisladiski í flutningi hennar og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Montreal. Tónleikaupptaka af fiðlukonsert Christians Jost, TiefenRausch, kom síðan út árið 2012.

Viviane Hagner hefur verið ötull boðberi klassískrar tónlistar til fólks á öllum aldri og heimsækir öldrunarstofnanir og skóla í því skyni að hvetja til hlustunar á sígilda tónlist og vekja áhuga ungs fólks á tónlistarnámi. Hún gegnir nú kennarastöðu við Ríkistónlistarháskólann í Mannheim auk þess að kenna á námskeiðum vítt og breitt um Evrópu, Bandaríkin og Asíu.