EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Ach ich liebte, war so glücklich

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) samdi Brottnámið úr kvennabúrinu 25 ára gamall að ósk Jósefs II Austurríkiskeisara. Mozart var þá nýfluttur til Vínarborgar, sloppinn undan hinni þungu verndarhendi föður síns og tilbúinn til að takast á við ný tækifæri. Í verkinu má segja að stefnumót tveggja menningarheima sé í forgrunni. Evrópskum ríkjum hafði stafað ógn af Ottómanveldinu um aldir en herir þess höfðu til að mynda gert tvær tilraunir til að leggja undir sig Vínarborg og hafði seinna umsátrið varað í tvo mánuði árið 1683. Þegar hér var komið sögu var ógnin þó orðin nógu fjarlæg til þess að tyrknesk menning kæmist beinlínis í tísku meðal Vínarbúa sem umgengust hana af nokkurri léttúð: Þeir létu mála af sér portrett í tyrkneskum klæðum, supu á tyrknesku kaffi og gleyptu í sig æsandi skáldsögur um evrópskar aðalsmeyjar sem seldar voru í tyrknesk kvennabúr.

Ein slík skáldsaga, Belmont og Constanza eftir Christoph Friedrich Bretzner, lá einmitt að baki leiktextanum að Brottnáminu úr kvennabúrinu. Óperan er í léttum dúr þótt umfjöllunarefnið gæti gefið tilefni til annars: Hún segir af tilraunum hetjunnar Belmonts til að bjarga heitmey sinni Constönzu úr kvennabúri ottómanska aðalsmannsins Selims. Þrátt fyrir gamansaman heildarsvip óperunnar er aría Constönzu, Ach ich liebte, war so glücklich, full af djúpum harmi og eftirsjá til jafns við fimleg stökk og glæsilegt skraut. 

Brottnámið sló rækilega í gegn strax á frumsýninu (jafnvel þótt keisaranum hafi að sögn þótt nóturnar heldur margar). Skömmu síðar gekk svo Mozart sjálfur að eiga sína eigin Constönzu í Vínarborg og í hönd fóru skammvinnir en gjöfulir hamingjutímar í lífi hans.