EN

Yo-Yo Ma

Sellóleikari

Fjölbreyttur ferill Yo-Yo Ma ber vitni um þá trú hans að menning sé þess megnug að laða fram traust og skilning milli fólks. Hann leitast við að efla tengsl manna á milli sem örva ímyndunaraflið og styrkja mennskuna í okkur hverju og einu. Þá gildir einu hvort hann er að leika ný eða gamalkunnug verk fyrir selló, efla hópa í að kanna hlutverk menningar í samfélaginu eða taka þátt í að skapa og flytja o ́venjulega tónlist. Nýlega hleypti Yo-Yo af stokkunum verkefninu Our Common Nature þar sem hann ferðast með sellóið sitt til ólíkra staða og hyllir þann mátt sem náttúran hefur til að sameina okkur í leit að sameiginlegri framtíð. Our Common Nature kemur í framhaldi af Bachverkefninu, þar sem Yo-Yo ferðaðist um sex heimsálfur með sellósvítur J. S. Bach í farteskinu og hélt tónleika a ́ 36 stöðum með þátttöku heimafólks. Bæði verkefnin endurspegla ódrepandi eldmóð Yo-Yo við að þenja mörk tónlistartegunda og hefða til að skilja hvernig tónlist getur hjálpað okkur að byggja upp sterkari samfélög. Yo-Yo Ma fæddist árið 1955 í París, af kínversku foreldri. Þar hóf hann fjögurra ára gamall að læra sellóleik undir handleiðslu föður síns. Þegar hann var sjö ára flutti fjölskyldan til New York þar sem Yo-Yo hélt sellónámi sínu áfram, m.a. við Juilliard-skólann, auk þess að stunda nám við Harvard háskóla. Yo-Yo hefur hljóðritað meira en 120 plötur, hlotið 19 Grammy verðlaun og leikið fyrir níu Bandaríkjaforseta, síðast við embættistöku Joe Biden. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun, þar á meðal Þjóðlistaverðlaun Bandaríkjanna, Frelsismerki Bandaríkjaforseta og Birgit Nilsson verðlaunin. Yo-Yo hefur verið friðarsendiboði Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 og tímaritið TIME útnefndi hann einn af 100 áhrifamestu einstaklingum heims árið 2020.