EN

Yulianna Avdeeva

Píanóleikari

 

Yulianna Avdeeva er fædd í Moskvu árið 1985. Hún vakti heimsathygli þegar hún hreppti fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Chopin-keppninni í Varsjá árið 2010, fyrsti kvenpíanistinn til að vinna þá keppni frá því að Martha Argerich hlaut 1. verðlaun árið 1965.

Avdeeva hefur komið fram með mörgum heimsfrægum hljómsveitum, meðal annars Útvarpshljómsveitinni í Berlín, Fílharmóníuhljómsveit Lundúna, Konunglegu fílharmóníuhljómsveitinni í Stokkhólmi og Santa Cecilia-hljómsveitinni í Róm. Á yfirstandandi tónleikaári kemur hún fram með sinfóníuhljómsveitinni í Montréal, Pittsburgh-sinfóníunni og Hátíðarhljómsveitinni í Luzern, auk þess að leika einleik með St. Martin-in-the-Fields akademíunni og Ríkishljómsveitinni í Moskvu. Síðastliðið sumar kom hún í fyrsta sinn fram á Tónlistarhátíðinni í Salzburg, og mun á næsta ári halda einleikstónleika í Óperuhúsinu í Sidney.

Avdeeva er einnig ötull flytjandi kammertónlistar og hefur m.a. haldið fjölda tónleika með fiðluleikaranum Juliu Fischer, kammerhópnum Kremerata Baltica og hljóðfæraleikurum úr Fílharmóníuhljómsveit Berlínar. Avdeeva hefur leikið inn á þrjá hljómdiska, m.a. konserta Chopins með Hljómsveit átjándu aldarinnar undir stjórn Frans Brüggen, auk þess sem Deutsche Grammophon gaf út túlkun hennar á einleiksverkum eftir Chopin árið 2015. Nýjasti diskur hennar kom út fyrr á þessu ári og hefur að geyma tónlist eftir Johann Sebastian Bach.