EN

Örlagasinfónían

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
4. feb. 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Örlagasinfónía Beethovens er einhver kunnasta tónsmíð allra tíma. „Þannig knýja örlögin dyra!“ á Beethoven að hafa sagt um upphafstónana frægu. Það er því viðeigandi að hún hljómi á þessu afmælisári Beethovens, en alls leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands fjórar sinfóníur og fjóra einleikskonserta Beethovens á þessu starfsári.

Alberto Ginastera var þjóðartónskáld Argentínu á 20. öld og samdi litrík verk sem innblásin eru af tónlist innfæddra. Í hörpukonserti hans, sem nú hljómar á Íslandi í fyrsta sinn, má heyra greinileg áhrif dansmúsíkur. Ruth Gipps var fyrsta breska konan til að hljóta doktorsnafnbót fyrir tónsmíðar, árið 1948. Glæsilegt tónaljóð hennar um brynjuklæddan riddara er frá árinu 1940 og var frumflutt á hinum vinsælu „Last Night of the Proms“ tónleikum tveimur árum síðar.

Xavier de Maistre hefur verið meðal fremstu hörpuleikara heims í meira en 20 ár. Árið 1999 varð hann fyrsti franski hljóðfæraleikarinn til að hljóta ráðningu hjá Vínarfílharmóníunni, og fáeinum árum síðar varð hann fyrstur hörpuleikara til að leika einleik á áskriftartónleikum þeirrar sögufrægu hljómsveitar. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leik sinn, spilað inn á ótal geisladiska og kennir meðal annars við Juilliard-skólann í New York. Íslenskir tónleikagestir heyrðu hann ásamt sópransöngkonunni Diönu Damrau á tónleikum á Listahátíð í Reykjavík árið 2013, en nú leikur hann í fyrsta sinn einleikskonsert hér á landi.

Franski hljómsveitarstjórinn Bertrand de Billy er sérlega innblásinn túlkandi og hefur verið fastagestur við Metropolitan-óperuna og tónlistarhátíðina í Salzburg um áratugaskeið. Hann hefur tvisvar áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með frábærum árangri.