EN

Rhapsody in Blue

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
29. okt. 2020 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Á þessum tónleikum hljóma nokkur dáðustu lykilverk bandarískrar tónlistar á 20. öld. George Gershwin var frumkvöðull þegar kom að því að fella saman hryn djassins og formbyggingu klassískrar tónlistar. Bæði Rhapsody in Blue og óperan Porgy og Bess voru tímamótaverk að þessu leyti og njóta enn vinsælda um allan heim. Candide-forleikur Bernsteins er frísklegur upptaktur að óperettu byggðri á sögu Voltaires, en Adagio Barbers er tilfinningaþrungið harmljóð.

Á tónleikunum hljómar einnig nýr konsert fyrir bassabásúnu eftir Kenneth Fuchs, en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir tónlist sína undanfarin ár, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir bestu hljómsveitarútgáfu árið 2018. „Hann er meistari í því að semja fyrir hljómsveit,“ sagði BBC Music Magazine, „og tónlist hans ber vott um ríkt ímyndunarafl“. Hópur leiðandi bassabásúnuleikara víðsvegar að úr heiminum pantaði nýja konsertinn í sameiningu og hefur hann hljómað víða um heim síðustu tvö árin.

Bæði hljómsveitarstjórinn og annar einleikaranna á þessum tónleikum hafa sterk tengsl við Ísland. David Bobroff er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en hefur verið bassabásúnuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1995. Hljómsveitarstjórinn, Keri-Lynn Wilson, er af íslensk-kanadísku bergi brotin; amma hennar var helsti píanisti Vestur-Íslendinga í Winnipeg á sinni tíð og grípur raunar enn í hljóðfærið á hverjum degi þótt hún sé orðin 100 ára gömul.

Einleikari í Rhapsody in Blue er hinn bandaríski Andrew von Oeyen, en hljómdiskar hans hafa hlotið frábæra dóma og ekki síst túlkun hans á verkum Gershwins. „Ótvíræðir hæfileikar og tækni sem bæði er glæsileg og fyrirhafnarlaus“, sagði gagnrýnandi The Los Angeles Times um leik hans, en von Oeyen kom fyrst fram með fílharmóníusveit borgarinnar aðeins 16 ára gamall.