EN

Rómantíska sinfónían

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
20. feb. 2025 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 9.800 kr.
Kaupa miða
 • Efnisskrá

  W.A. Mozart Forleikurinn að Brottnáminu úr kvennabúrinu
  Lotta Wennäkoski Sigla, hörpukonsert
  Anton Bruckner Sinfónía nr. 4, „Rómantíska sinfónían“

 • Hljómsveitarstjóri

  Eva Ollikainen

 • Einleikari

  Katie Buckley

Sinfóníur Antons Bruckner hafa verið nefndar dómkirkjur í tónum því þær eru bæði stórar að vexti og inntak þeirra djúpt og stórbrotið. Bruckner var lengi að finna sig sem tónskáld, var framan af fyrst og fremst organisti og hljómfræðikennari. Hann var strangtrúaður kaþólikki og samdi mikið af trúarlegri tónlist. Fjórða sinfónía Bruckners var lengi í smíðum og endurskrifaði hann stóran hluta hennar áður en hún var frumflutt árið 1881 við góðar undirtektir. Hann gaf sinfóníunni undirtitilinn hin rómantíska sem má túlka sem virðingarvott við þýsku rómantísku tónskáldin en í verkinu má finna enduróm allt frá Weber og Schumann til Wagners.

Katie Buckley hefur verið leiðandi hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 2006. Samhliða því hefur hún komið víða við í íslensku tónlistarlífi. Katie lýsir fyrstu kynnum sínum af verkinu svona: „Ég heillaðist algjörlega af þeirri útvíkkuðu tækni sem ég heyrði og hljómaði svo algjörlega sem hluti af náttúrulegum litum hörpunnar“.

Frægðarsól Wennäkoski hefur risið hratt á síðustu árum. Hún hefur samið hljómsveitarverk, óperur, kammertónlist og söngverk og er tónlist hennar reglulega flutt um allan heim. Konsertinn Sigla var frumfluttur og hljóðritaður árið 2022 af Sinfóníuhljómsveit finnska útvarpsins og hlaut sú hljóðritun verðlaun í flokki samtímatónlistar á verðlaunahátíð tímaritsins Gramophone ári síðar. Tónleikarnir hefjast á hinum léttleikandi forleik að Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.