EN

28. janúar 2025

Léttleiki hörpunnar í rokkstjörnubúningi

Viðtal við Katie Buckley hörpuleikara

Katie Buckley hefur verið leiðandi hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2006. Hún kemur fram sem einleikari í hörpukonsertinum Sigla eftir Lottu Wennäkoski fimmtudagskvöldið 20. febrúar næstkomandi. Katie er ástríðufullur túlkandi nýrrar tónlistar, frá Önnu Þorvaldsdóttur til Bjarkar Guðmundsdóttur, en elskar líka frönsku meistarana, Ravel og Debussy.

„Það er skemmtilegt að vera hörpuleikari á Íslandi,“ segir Katie Buckley glaðbeitt í upphafi samtals. „Mér finnst eins og það gerist ekki víða annars staðar að maður fái ekki bara tækifæri til að spila fjölbreytta tónlist, heldur eiginlega neyðist til þess! Tækifærin eru alls staðar og hörpuleikararnir ekki margir. Maður hendir sér í alls konar verkefni. Í Bandaríkjunum er það þannig að ef þú ert leiðari í sinfóníuhljómsveit er það starfið þitt. Ekki mikið meira!“

NEISTI HÖRPUNNAR GLÆÐIR HLJÓMSVEITINA LÍFI

Auk þess að spila með Sinfóníunni hefur Katie látið mikið til sín taka á sviði samtímatónlistar. Árið 2007 stofnaði hún til að mynda Duo Harpverk ásamt Frank Aarnink slagverksleikara í Sinfóníunni og hafa þau nú frumflutt yfir 200 ný tónverk eftir mörg af okkar fremstu tónskáldum. Þá hefur hún leikið með tónlistarmönnum úr ýmsum áttum en Katie lék til að mynda á hörpu í Cornucopia–tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur. Og nú verður Katie í hlutverki einleikara. „Ég hlakka til og er óskaplega spennt fyrir verkinu,“ segir Katie, en konsertinn Sigla er eftir eitt fremsta tónskáld Finnlands um þessar mundir, Lottu Wennäkoski. Tónskáldið lýsir verkinu þannig að harpan hleypi neista í hljómsveitina og leysi úr læðingi litadýrð hennar. „Ég þekkti ekki til þessa verks, það var Eva Ollikainen sem stakk upp á því við mig.

Ég var stödd á flugvelli í Tókýó þegar ég hlóð því niður á símann og byrjaði að hlusta. Ég varð strax stórhrifin, ekki síst af notkun tónskáldsins á því sem kallast útvíkkuð tækni í hörpu heiminum, en það er þegar farið er út fyrir hið hefðbundna strengja plokk — til dæmis þegar spilað er með nöglunum, eða harpan er fest milli tónstillinga svo hljómurinn verður dálítið annarlegur. Wennäkoski nýtir sér svona tækni en beitir henni af mikilli smekkvísi og fínlegheitum þó tónmálið sé nýtt og kraftmikið. Þetta er tónverk þar sem léttleiki hörpunnar fær að njóta sín — en með hrjúfum rokk stjörnu blæ í bland. Það er líka mikið slagverk í hljómsveitinni, og ýmis spennandi hljóð sem berast þaðan. Þetta er hrífandi hljóðheimur. Svo er líka margt spennandi að sjá. Harpan er líka mjög sjónrænt hljóðfæri og það er mikill hluti af tónleikaupplifuninni.“

TILVILJUN RÉÐI FÖR TIL ÍSLANDS

Katie er fædd og uppalin í Atlanta í Georgíu ríki í Bandaríkjunum og sótti ung einna helst tónlistaruppeldi til ömmu sinnar. „Amma mín var ballettpíanóleikari hjá Atlanta ballettinum. Svo ég ólst mikið upp í ballett og dansi við hennar píanóleik. Þegar ég óx úr grasi langaði mig helst til þess að læra á selló. Svo ég grátbað mömmu um að fá að læra á selló, en mamma hafði átt slæma reynslu af píanónámi sem dóttir píanóleikara — henni fannst það hræðilegt. Svo ég þurfti virkilega að hafa fyrir því að fá að læra á hljóðfæri! Þegar hún lét loksins undan var ég orðin átta ára. Við fórum í tónlistarskólann, en þar var mér sagt að ég væri allt of gömul til að hefja sellónám,“ segir Katie og hlær þegar hún hugsar til baka til þessara hindrana í upphafi tónlistarnámsins. „Ég fékk þó að byrja að læra á hörpu — með því skilyrði að mér gengi vel strax á fyrstu sex vikunum.“ Katie stóðst þessar raunir með glæsibrag, og um 15 ára aldur varð henni ljóst að harpan væri meira en áhugamál „Ég hafði starfað með ungmennahljómsveit og fannst það stór kostlegt. Ég fann að ég vildi verða hörpuleikari í sinfóníuhljómsveit.“ Katie stundaði bæði grunn- og framhaldsnám við Eastman tónlistarháskólann í Rochester í New York og þar snerist dæmið reyndar við: „Þá heillaðist ég af samtíma og kammertónlist og ákvað að verða alls ekki hörpuleikari í sinfóníuhljómsveit. Nú hafa örlögin hagað því þannig til að ég fæ að gera hvort tveggja,“ segir Katie glöð í bragði. Það var þó í raun tilviljun að Ísland varð fyrir valinu hjá henni — ein af fjölmörgum í lífi hljóðfæraleikarans. „Ég var byrjuð í framhaldsdiplómunámi í Yale þegar skólaleiðinn helltist yfir mig. Ég ákvað að sækja um í næsta prufuspili sem ég sæi auglýst, sama hvar.“ Auglýsingin var frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Síðan eru liðin nær 20 ár. Ísland hefur verið mér gott — og ég er ekki á förum!“