EN

Shostakovitsj og Barber - frestað

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
20. jan. 2022 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.
  • Efnisskrá

    Unsuk Chin Frontispiece
    Samuel Barber Fiðlukonsert
    Dmítríj Shostakovitsj Sinfónía nr. 10

  • Hljómsveitarstjóri

    Michael Sanderling

  • Einleikari

    Johan Dalene

Tónleikunum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Frekari upplýsingar um tónleikana verða sendar út til miðahafa þegar ný dagsetning hefur verið ákveðin.

„Ein besta fiðlufrumraun áratugarins“, sagði gagnrýnandi BBC Music Magazine nýverið um fyrsta geisladisk Johans Dalene, sænska fiðlusnillingsins sem er aðeins tvítugur að aldri en hefur þegar lagt tónlistarheiminn að fótum sér. Dalene hlaut fyrstu verðlaun í Carl Nielsen-fiðlukeppninni árið 2019, fékk í kjölfarið útgáfusamning hjá BIS og hefur Stradivarius- fiðlu til umráða. Nýjasti diskur hans var valinn ein af útgáfum mánaðarins hjá tímaritinu Gramophone.
Hér gefst einstakt tækifæri til að sjá eitt af skærustu ungstirnum fiðluheimsins í dag flytja hinn ljóðræna fiðlukonsert Barbers.

Michael Sanderling er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Luzern en á einnig að baki farsælt samstarf með Fílharmóníusveitinni í Dresden. Útgáfa hans hjá Sony Classical á öllum sinfóníum Shostakovitsj hlaut frábæra dóma um allan heim og sópaði að sér verðlaunum. Segja má að Sanderling hafi stjórnandahæfileikana í blóðinu og ekki síður tengslin við Shostakovitsj. Faðir hans, hljómsveitarstjórinn Kurt Sanderling, var náinn vinur Shostakovitsj og stjórnaði fyrsta flutningi á allmörgum verka hans í Þýskalandi. Það má því búast við sannkölluðu gneistaflugi þegar hin magnþrungna sinfónía nr. 10 hljómar í meðförum Sanderlings með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Kóreska tónskáldið Unsuk Chin hefur um árabil verið í röð fremstu samtímatónskálda á heimsvísu. Hún hlaut hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2021, en meðal fyrri verðlaunahafa eru Ígor Stravinskíj og Arvo Pärt. Árið 2019 sagði listrýnir The Guardian að sellókonsert Chin væri eitt af allra bestu tónverkum 21. aldarinnar til þessa. Nú leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn verk eftir þessa mögnuðu listakonu, Frontispiece, sem hlaut frábæra dóma við frumflutninginn í Elbphilharmonie í Hamborg árið 2019.