EN

Þúsund og ein nótt

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
4. mar. 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands flytur Tamara Stefanovich með hljómsveitinni píanókonsert nr. 1 eftir Bartók, verk frá árinu 1926 sem hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Tamara Stefanovich er einn helsti flytjandi samtímatónlistar fyrir píanó í heiminum í dag. Breska dagblaðið The Guardian valdi einleikstónleika hennar í Lundúnum meðal þriggja hápunkta tónlistar á árinu 2019 og sagði meðal annars: „Þessir tónleikar voru stórkostlegt afrek, bæði hvað snertir ímyndunarafl, tónlistargáfur eða tæknilega yfirburði.“ Íslenskir tónleikagestir muna eftir því þegar Stefanovich hljóp í skarðið og lék krefjandi einleikskonsert Ligetis með Sinfóníuhljómsveit Íslands með aðeins örfárra daga fyrirvara árið 2014, þá komin átta mánuði á leið.

Elim Chan hefur skotist upp á stjörnuhimin tónlistarinnar með ógnarhraða undanfarin ár. Hún er fædd í Hong Kong en lærði hljómsveitarstjórn í Bandaríkjunum, varð fyrst kvenna til að vinna Flick-stjórnandakeppnina og er nú aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Antwerpen.

Rimskíj-Korsakov var einn snjallasti útsetjari tónlistarsögunnar. Hvergi nýtur sú gáfa hans sín betur en í hinu litríka hljómsveitarverki Sheherazade, sem byggir á ævintýrum úr Þúsund og einni nótt. Soldán nokkur er sannfærður um að allar konur séu svikular, og strengir þess heit að festa sér nýja brúði hvern dag og taka hana af lífi að morgni. Hin fagra Sheherazade bjargar lífi sínu með því að segja manni sínum sögur, og í þúsund og eina nótt þylur hún hin ýmsu ævintýri soldáninum til skemmtunar.

Einnig hljómar verk sem bandaríska tónskáldið Elizabeth Ogonek samdi fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Chicago, en þar er hún staðartónskáld. Verkið ber undirtitilinn „Þrír litlir dansar fyrir hljómsveit“ og segist tónskáldið í því hafa viljað „tjá hluti sem færa heiminum gleði“.