EN

Alban Berg: Svíta úr óperunni Lulu

Alban Berg (1885-1935) tileinkaði sér að fullu hina nýju tónsmíðaaðferð lærimeistara síns Arnolds Schönbergs, tólftóna-aðferðina, en umgekkst hana þó ævinlega af ákveðnu frelsi. Hann leyfði tónlistinni gjarnan að enduróma ljóðrænu og rómantík liðins tíma innan ramma hins nýja tónskipulags. Í höndum Bergs öðlaðist tónlist samin með hinni hreinu og vitsmunalegu tólftónaaðferð skyndilega hlýju og tilfinningalegan áhrifamátt – eins og heyra má glöggt í óperunni Lulu.

Óperan Lulu byggir á tveimur leikritum eftir þýska leikritaskáldið Frank Wedekind, Anda jarðar frá 1895 og Pandóruöskjunni frá 1905. Hreyfiafl leikritanna er hin dularfulla söguhetja Lulu, en segja má að hún sé skapandi eyðileggingarmáttur ástarinnar holdi klæddur. Lulu er í senn hrífandi þokkagyðja og siðlaust tálkvendi, kaldrifjaður morðingi og fórnarlamb aðstæðna. Í óperunni fylgjumst við með henni klífa þjóðfélagsstigann með því að draga á tálar menn sem svo ýmist stytta sér aldur eða falla fyrir hendi hennar. Gæfa hennar sjálfrar reynist þó einnig fallvölt og endar hún ævidaga sína sem vændiskona í Lundúnum, rist á hol af frægum morðingja, sjálfum Kobba kviðristu, Jack the Ripper. Hið samhverfa ris og hnig aðalpersónunnar hefur án efa verið eitt af því sem vakti áhuga Albans Bergs á söguefninu, en samhverfan er ráðandi einkenni á jafnt leikrænni framvindu og tónlistarlegri byggingu verksins.

Berg hófst handa við að semja Lulu eftir að fyrri ópera hans, Wozzeck, hafði slegið í gegn og framtíðin virtist björt. Hann skrifaði líbrettóið 1928 og tónsmíðunum átti hann eftir að sinna með hléum nánast til dauðadags, en hann lagði verkið að lokum til hliðar til þess að skrifa fiðlukonsertinn sinn árið 1935. Á þeim langa tíma sem Berg vann að Lulu umbreyttist menningarástandið bæði í Vínarborg og Berlín: Gyðingaandúð fór vaxandi og smám saman varð hugmyndafræði nasismans allsráðandi. Tónlist Vínarskólans síðari – þeirra Schönbergs, Bergs og Antons Weberns (1883-1945) – var úthrópuð sem úrkynjuð list. Að lokum varð Berg ljóst að Lulu gæti ekki hlotið glæsilega frumsýningu í Berlín líkt og Wozzeck. Hann útbjó því konsertsvítu í fimm þáttum fyrir sópran og hljómsveit upp úr efni hennar – ef vera kynni að óperan í heild fengi aldrei að rata á svið. Svítan var frumflutt í Staatsoper í Berlín 30. nóvember 1934 við talsverða hrifningu áheyrenda en fordæming yfirvalda lét ekki á sér standa.


Fyrsti þáttur svítunnar er rondó sem tengist hreinni og fölskva- lausri ást hins unga og reynslulausa tónskálds Alwa á Lulu í fyrsta þætti óperunnar. Í öðrum þætti svítunnar hljómar tónlistin úr miðpunkti óperunnar. Samkvæmt sviðsleiðbeiningum fylgir hún þögulli kvikmynd sem sýnir leiftur af nýlegum atburðum úr lífi Luluar: handtöku, réttarhöld, fangelsun og flótta. Í miðjum klíðum snýst allt bókstaflega við – kvikmyndin spólar til baka og tónlistin spilast aftur á bak – seinni hluti þáttarins er spegilmynd af hinum fyrri. Í þriðja þætti hefur Lulu svo upp raust sína í hríf- andi og tjáningarríkri sjálfslýsingu sem krefst fádæma tækni og listfengi af hendi söngkonunnar. Fjórði þáttur er í formi tilbrigða sem færa sögusviðið smám saman úr glæsilegum salarkynnum Parísar yfir í lágkúru götulífsins í Lundúnum. Síðasti þátturinn er magnþrungið svar við harmrænum dauða Luluar. Geschwitz greifynja, ástkona Luluar og tryggasti aðdáandi hennar, hefur fórnað lífi sínu til að reyna að bjarga henni og fallið fyrir kuta Kobba kviðristu. Lokasöngur hennar er örstutt en einlæg bæn um endurfundi handan dauðans.