EN

Alberto Ginastera: Estancia, ballettsvíta

Argentínska tónskáldið Alberto Ginastera (1916–83) var eitt áhrifamesta tónskáld Rómönsku Ameríku á 20. öld. Hann fæddist í Buenos Aires og lærði þar tónlist, en stundaði síðar framhaldsnám hjá Aaron Copland í Bandaríkjunum. Ginastera sameinaði í verkum sínum þjóðlegan tón og alþjóðlegan, ekki ólíkt því sem Bartók hafði gert. Sterkur hrynur argentínskrar þjóðlagatónlistar setur svip á verk hans, en meðal þeirra kunnustu eru þróttmikil píanósónata (1952), fjórar óperur, tveir ballettar, og einleikskonsertar fyrir hörpu, fiðlu og píanó.

Ginastera samdi ballettinn Estancia árið 1941, sama ár og hann kynntist Aaron Copland sem þá var á tónleikaferðalagi um Suður-Ameríku. Söguþráðurinn lýsir hvernig borgarpiltur verður ástfanginn af sveitastúlku og þarf að sanna fyrir henni að hann sé bæði liðtækur kúasmali og dansari áður en hún þýðist hann. Svítan sem Ginastera setti saman með nokkrum helstu dönsum verksins er meðal hans vinsælustu verka. Áhrif argentínskrar þjóðlagatónlistar og þjóðdansa eru augljós, hvort sem er í kraftmiklum malambo-skrefum fyrsta þáttar (þar sem hrynurinn skiptist ýmist í tvennt eða þrennt), rólegum „hveitidansi“ eða æsispennandi lokaþættinum (Danza final) þar sem allt er látið flakka í kraftmiklum gleðidansi.