EN

Alexander Glazúnov: Konsert fyrir altsaxófón

Aleksandr Glazúnov (1865–1936) var nemandi Rimskíj-Korsakovs og var talinn eitt fremsta tónskáld Rússlands um aldamótin 1900. Hann skildi eftir sig fjölda verka, meðal annars níu sinfóníur, sjö strengjakvartetta og konserta fyrir píanó, selló, saxófón og fiðlu. Hann naut ekki síður virðingar fyrir störf sín sem tónsmíðakennari og rektor Tónlistarháskólans í Sankti Pétursborg en þeirri stöðu gegndi hann um áratuga skeið, frá 1905–28.

Upp úr 1910 var Glazúnov í sífellt meiri andstöðu við samtíma sinn og átti fátt sameiginlegt með þeim módernistum sem þá létu að sér kveða. Hann háði líka glímu við Bakkus; samkvæmt endurminningum Shostakovitsj lagði hann það í vana sinn að geyma vínflösku bak við skrifborð sitt í Tónlistarháskólanum og saup á í tímum þegar enginn sá til hans. Glazúnov var mikill velgjörðarmaður Shostakovitsj á námsárum hins síðarnefnda, útvegaði honum námsstyrk og sá til þess að Fílharmóníuhljómsveitin í Leníngrad frumflutti fyrstu sinfóníu hans.

Saxófónkonsertinn var síðasta verk Glazúnovs, saminn árið 1934. Sigurd Raschèr var frægur þýskur saxófónleikari sem hafði lengi átt þann draum að Glazúnov semdi handa sér konsert. Að lokum lét Glazúnov undan en lét þess getið að það hefði eingöngu verið til að „losna undan ofsóknum“ einleikarans. Raschèr frumflutti verkið í Svíþjóð í nóvember 1934 en tónskáldið sjálft lifði ekki að heyra það flutt á tónleikum. Konsertinn er í einum þætti sem skiptist í nokkra hluta. Um miðbikið hljómar íhugull kafli en yfirbragðið verður líflegra í lokakaflanum. Tónlistin sjálf er einkar íhaldssöm; jafnvel þótt komið væri fram á fjórða áratug 20. aldar hélt hinn tæplega sjötugi Glazúnov sig við þann stíl sem honum var tamur allt frá unglingsárum.