EN

Andrea Tarrodi: Liguria

Andrea Tarrodi (f. 1981) er eitt fremsta sænska tónskáld sinnar kynslóðar. Hún hóf píanónám átta ára gömul og áhugi hennar á tónsmíðum kviknaði snemma. Hún lærði meðal annars við Tónlistarháskólann í Stokkhólmi og í Perugia á Ítalíu, og verk hennar hafa verið flutt m.a. í Berlínarfílharmóníunni, Musikverein í Vínarborg og Barbican Centre í Lundúnum. Tarrodi er tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020. Verkið Liguria er frá árinu 2012. Þar rifjar hún upp gönguferð sína um hina litríku smábæi í Cinque Terre á Lígúríuströnd Ítalíu. Verkið hefur hlotið frábærar viðtökur víða um heim, meðal annars á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall þar sem einn gagnrýnandi líkti því við glitrandi tónaheim Respighis.