EN

Anna Þorvaldsdóttir: Aeriality

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) lauk BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2004 og MA-gráðu í tónsmíðum vorið 2008 frá University of California í San Diego. Hún lauk nýverið doktorsgráðu við sama skóla þar sem hún hefur aðallega verið í samstarfi við Rand Steiger, Lei Liang og Steven Schick. Anna sinnti kennslu við University of California í San Diego árið 2011, annars vegar í tónsmíðum og hins vegar í tónlistarsögu og greiningu. Verk hennar eru flutt reglulega í Evrópu og í Bandaríkjunum og á tónlistarhátíðum á borð við Norræna músíkdaga og Myrka músíkdaga. Verk Önnu hafa hlotið ýmis verðlaun og tilnefningar, svo sem á Prix Europa og á Alþjóðlega tónskáldaþinginu. Hrím var valið tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2011. 

Anna vinnur mikið með stóra hljóðheima í tónlist sinni, fyrir kammersamspil, hljómsveitir, einleikara, raddir eða rafhljóð. Innblástur frá landslagi og náttúru birtist ítrekað í flæðandi hljóðstrúktúrum í bland við óræðar lagrænar hugleiðingar. Fyrsta portraitplata Önnu – Rhíz¯oma – kom út í október 2011 hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Innova Recordings og hefur hlotið afar góða dóma. Diskurinn inniheldur þrjú stærri verk fyrir hljómsveit og kammerhljómsveit, auk fimm stuttra kafla úr verki fyrir slagverksleikara sem leikur á innviði flygils. Verkin eru í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, CAPUT, og slagverksleikarans Justin DeHart. 

AERIALITY er samið fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2011. Anna hefur eftirfarandi orð um verkið: 

AERIALITY dansar á mörkum hljómsveitartónlistar og hljóðlistar, en í verkinu fléttast saman lagræn tónefni og þykkir hljóðmassar. Að hluta til samanstendur verkið af þykkum hljómum þar sem öll hljóðfæri hljómsveitarinnar renna saman í eitt og mynda margradda hljóðvegg. Krómatískir hljómar eru stækkaðir með notkun kvarttóna til að skapa þétta hljóðáferð – mörkin á milli einstakra hljóðfæra verða óljós og hljómsveitin verður að þéttum massa. Þessi hljóðheimur kallast á við flæðandi efni þar sem smærri hljóðfærasamsetningar taka sig saman með tónefni sem ferðast á milli eininga innan hljómsveitarinnar. Við hápunkt verksins byggist upp breiður og óræður hljóðmassi. Hann leysist síðan upp í stutta lagræna hugleiðingu sem blómstrar í skamma stund og skilur eftir sig skugga af sjálfri sér. 

Orðið AERIALITY vísar til þess að vera í lausu lofti, án haldreipis, og þannig bæði til frelsis og óróleika. Þá vísar orðið einnig til þeirrar yfirsýnar sem fæst úr lofti en ekki frá jörðu. Titill verksins er ennfremur orðaleikur þar sem orðunum aerial og reality er blandað saman til að skapa andstæður; reality ber tilvísun í jörð, hið raunverulega, og aerial í himinn, eða hið ósnertanlega.“