Anna Þorvaldsdóttir: Before we fall (sellókonsert)
Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) á að baki glæstan feril í heimi tónlistarinnar. Verk hennar hafa hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun og er Anna til að mynda handhafi Tónlistarverðlauna
Norðurlandaráðs 2012, Kravis Emerging Composer Award frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015 og hinna bresku Ivors Academy tónskáldaverðlauna 2021.
Anna hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð tónskálda á heimsvísu og margar af helstu hljómsveitum veraldar hafa pantað hjá henni verk. Þannig hafa verk hennar hljómað víða í flutningi hljómsveita á borð við Fílharmóníusveitirnar í Berlín, Stokkhólmi, Ósló, New York, Los Angeles, Orchestre de Paris, Ensemble Intercontemporain og svo mætti lengi telja. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt flest af hljómsveitarverkum Önnu og nokkur þeirra á tónleikaferðum erlendis. Í tónleikaferð til Austurríkis haustið 2019 flutti hljómsveitin Aeriality í München, Salzburg og Berlín, og aftur í Bretlandsferðinni 2020. Vorið 2023 flutti hljómsveitin svo Metacosmos á öllum tíu tónleikum sínum í ferð til Bretlandseyja. Í marsmánuði 2026 liggur leiðin til Evrópulanda þar sem hljómsveitarverkið Anchora mun hljóma á sex tónleikum í Sviss, Þýskalandi og á Spáni.
Sellókonsertinn Before we fall var pantaður af Sinfóníuhljómsveitinni í San Francisco, BBC Proms, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Helsinki fílharmóníunni og Sinfóníuhljómsveitinni í Óðinsvéum og var verkið frumflutt í San Francisco í maí á liðnu vori. Stjórnandi var finnski hljómsveitarstjórinn Dalia Stasevska. Verkið var síðan frumflutt í Evrópu á tónleikum BBC Proms í Royal Albert Hall í London 13. ágúst síðastliðnum í meðförum Sinfóníuhljómsveitar breska útvarpsins BBC undir stjórn Evu Ollikainen. Einleikari á báðum þessum tónleikum var Johannes Moser og hlaut flutningurinn fádæma góðar viðtökur.
Um verk sitt segir Anna Þorvaldsdóttir:
Kjarni innblástursins að baki sellókonsertsins Before we fall hverfist um hugmyndina um jafnvægi, það að ramba á barmi ólíkra andstæðna. Formgerð verksins flæðir milli ljóðrænu og brenglaðrar orku, tveggja frumafla sem hemja þessa óreiðu. Knúið áfram af ríkri ljóðrænni tilfinningu sem gegnsýrir verkið, finnur það leið inn í straum sem tengir og kemur á ólíkan hátt jafnvægi milli andstæðnanna. Hin þétti grunnur - nærvera stöðugra hljómaklasa - sameinast fíngerðum og óreiðukenndum hljóðum sem saman mynda jarðveg fyrir einleikshljóðfærið, formgerðina sem hann stendur á og hreyfist innan. Sellóið, bæði eitt og sér en einnig tjáningarlega nátengt innviðum hljómsveitarinnar, myndar framþróun andrúmslofts rýmisins sem það býr í en er þó stöðugt á barmi þess að falla út fyrir raunveruleikann sem það er að skapa sér.
Líkt og með verk mín almennt, er innblásturinn ekki eitthvað sem ég er að reyna að lýsa í gegnum tónlistina eða um hvað tónlistin er sem slík. Innblástur er leið til að hreyfa við yfirborði kjarnans, formgerð, andrúmslofti og efnisþáttum tónlistarinnar sem ég er að vinna að á hverjum tíma. Þetta er eldsneyti fyrir hugdetturnar, skynjanirnar sem næra og neistinn að tónlistinni. Hinar mismunandi uppsprettur að innblæstri verða endanlega áhrifaríkar þegar ég skynja eitthvað sem snertir mig. Ég tek mér oft góðan tíma til að finna leiðir til að orða mikilvæga þætti í tónhugmyndunum eða hugdettum sem hafa viss lykilhlutverk í uppruna hvers verks en tónlistin sjálf sprettur ekki frá orðum, hún birtist sem straumur af meðvitund sem flæðir, er fundin, skynjuð, mótuð og svo fullunnin. Þannig að innblástur er hluti af uppruna verks en á endanum stendur tónlistin sjálfstæð á eigin fótum.