EN

Anna Þorvaldsdóttir: Dreymi

Náttúra
eining
flæði
sýn
hlýð
eining
Náttúra

„Veikur hljóðheimur fæðist af þögn, verkið verður til af hinu hljóða. Tónlistin er í einum þætti sem frá byrjun til enda myndar flæðandi hljóðheim. Hljómsveitarstjórinn verður hluti af hljómsveitinni þar sem hlutverk hans og „leikur” er á ákveðnum stöðum ritaður til aðgreiningar frá reglulegum taktslætti. Eftir flæðandi samspil taka hljóðfæraleikararnir, hver og einn, smám saman við að leika einleik samtímis, sem myndar þannig samspil af einstaka þáttum. Hreyfingarlaus nærvera stjórnandans stýrir hljómsveitinni að lokum. Tilvist hans leiðir hljómsveitina og verkið inn í hið óendanlega. Tími er óþarfur. Hringrásin heldur áfram. 

Sá innblástur sem náttúran veitir er ekki í formi þess að vilja endurskapa þann hljóðheim eða þær myndir sem þar er að finna. Það má líta á innblásturinn sem ákveðna heimild til að endurspegla þau hlutföll og þá náttúrulegu framvindu sem fyrir augu eða eyru ber. 

Í hverjum hljómi má finna hljóðaveröld þar sem hinar smáu hljóðeiningar leysast upp og skapa sinn eigin hljóðheim. Með því að beina hlustuninni að mismunandi eiginleikum hljóðsins má breyta upplifuninni frá einu andartaki til annars. 

-uppgötvun-

Verkið var innblásið af og er tileinkað stórkostlegri náttúru Íslands, þeirrar fegurðar sem ég er svo lánsöm að hafa fengið að fæðast til.“

Anna Þorvaldsdóttir (1977) hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs 2012 fyrir verkið Dreymi, fyrst íslenskra kvenna og sú þriðja úr röðum kvenna í sögu verðlaunanna. Þema verðlaunanna 2012 var að þau skyldu veitt núlifandi tónskáldi. Engar reglur voru um tegund tónverksins en það yrði að „uppfylla listrænar kröfur og vera einstakt innan sinnar tegundar.“ Í rökstuðningi dómnefndar um verkið mátti meðal annars lesa: „Dreymi opnar veröld sinfóníunnar á óvenjulegan og nýskapandi hátt. Upphaf og lok verksins hljómar utan tíma og myndar hringrás sem minnir á norrænar goðsagnir og náttúrutrú. Með tónlistinni er reynt að skapa reynslu sem fær tímann til að hverfa – eins og í draumi.“ 

Anna hefur hlotið verðskuldaða athygli og margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín sem eru flutt reglulega á alþjóðlegum vettvangi. Hún lauk BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Mistar Þorkelsdóttur og Þorkels Sigurbjörnssonar og doktorsprófi frá University of California í San Diego í Bandaríkjunum. Anna notar ekki hljóðfæri þegar hún semur tónlist sína heldur teiknar hún skissur af tónverkunum og handskrifar nóturnar. Í verkum Önnu er hljóð­ heimurinn oft og tíðum víðfemur og fjölbreyttur og gjarnan innblásinn af framvindu og hlutföllum í náttúru og landslagi. Anna er með útgáfusamning við Deutsche Grammophon og Universal Music Classics, en verk hennar koma einnig út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus og er von á nýjum diski með verkum Önnu í lok ágúst 2015. Anna leggur þessa dagana lokahönd á vinnu við óperu sem verður frumflutt í Trier í Þýskalandi í september 2015 og í beinu framhaldi flutt á Ultima-hátíðinni í Osló og víðar. Á meðal tónsmíðapantana sem Anna mun skrifa á næstu árum eru verk fyrir Ensemble Intercontemporain, The International Contemporary Ensemble (ICE) og The Crossing Choir, Spektral Quartet og verk fyrir New York Philharmonic. Nýlega var tilkynnt að Anna hlýtur nú hin virtu Kravis Emerging Composer Prize sem veitt eru af Fílharmóníusveit New York-borgar annað hvert ár.